Tindastólsmenn lagvissir í Ljónagryfjunni
Lið Tindastóls gerði fína ferð í Njarðvík í gær þar sem það mætti liði heimamanna í fimmtu umferð Subway-deildarinnar. Bæði lið höfðu tapað síðustu leikjum sínum eftir góða byrjun á mótinu og því mikilvægt að hrista af sér slenið og komast aftur á sigurbraut. Að venju var boðið upp á baráttu og leikgleði í Ljónagryfjunni en í gær var lið Tindastóls einfaldlega betra og uppskar góðan sigur, vörðust betur en heimamenn og skoruðu meira. Sem er mikilvægt... Lokatölur 74-83.
Lið Tindastóls náði fljótt góðum tökum á leiknum, vörnin til fyrirmyndar og framlag var að koma úr öllum áttum. Eftir fimm mínútna leik var staðan 5-12 og síðan fylgdu fjórir þristar frá Stólunum og staðan 10-24 einni og hálfri mínútu síðar. Þarna var leikur Stólanna glimrandi góður en staðan að fyrsta leikhluta loknum var 17-28. Arnar og Badmus bættu við þristum í upphafi annars leikhluta og allt lék í höndunum á okkar mönnum. Einhver ótrúlega gáfuð manneskja hefur þó haft á orði að körfubolti sé leikur áhlaupa og smám saman náðu Njarðvíkingar að herða vörnina hjá sér og sóknarleikur Stólanna fór að hiksta. Staðan var 26-37 þegar fjórar mínútur voru til leikhlés og þá small sóknin í gang hjá heimamönnum sem náðu að keyra á gestina og skiluðu niður nokkrum þristum í hröðum sóknum. Þegar mínúta var til leikhlés voru þeir komnir yfir, 41-39, en Bess jafnaði metin og allt jafnt í hálfleik. Staðan 41-41.
Í viðtali Stöðvar2Sports við Baldur Þór áður en liðin gengu til búningsherbergja sagði hann að nú þyrftu Stólarnir að fara aftur í það sem þeir gerðu vel í fyrri hálfleik og gera minna af því sem þeir gerðu illa. Að sjálfsögðu.
Þrátt fyrir að heimamenn hafi hafið þriðja leikhluta vel og náð sex stiga forystu, 48-42, þá var þetta engu að síður það sem Stólarnir gerðu. Þeir komu sér á ný inn í leikinn með því að herða á varnarleiknum og koma í veg fyrir að gestirnir gerðu það sem þeir ætluðu sér. Þristur frá Arnari gaf tóninn og gestirnir komust yfir á ný, 48-51, en síðan var jafnræði með liðunum næstu mínútur. Bess var maðurinn síðustu mínútu leikhlutans; fyrst setti hann niður erfitt skot yfir risann Lampropoulos og fiskaði víti og fjórðu villuna á Grikkjann. Skömmu síðar stal hann boltanum við miðju og óð upp og tróð með tilþrifum. Staðan 60-65 og þrátt fyrir að Veigar Páll minnkaði muninn af vítalínunni þá gaf þetta tóninn fyrir fjórða leikhlutann.
Tindastólsmenn voru enn á tánum í lokaleikhlutanum og sóknarleikur heimamanna var tilviljanakenndur. Fljótlega voru Stólarnir komnir með sex til níu stiga forystu og hana náðu heimamenn aldrei að saxa neitt á og gestirnir með leikinn í sínum höndum. Gott að sjá að liðið gat siglt sigrinum í höfn án vandkvæða á erfiðum útivelli.
Javon Bess var flottur í gær með sitt silkiskot, gerði 22 stig, en framlagshæstur var Taiwo Badmus með 14 stig og níu fráköst. Siggi Þorsteins hélt áfram að heilla í Stólagallanum, stemningskall sem skilaði 15 stigum og tíu fráköstum. Sigtryggur Arnar var með 13 stig, Massamba níu og Pétur fimm og þeir kappar skiluðu hörku varnarleik líkt og allt liðið. Jöfn og góð frammistaða hjá Stólunum og í raun aðeins um fimm mínútna kafli þar sem menn voru ekki á táberginu.
Í liði Njarðvíkinga var Lamprapoulos atkvæðamestur með 18 stig og níu fráköst og Deon Basile skilaði 15 stigum en hann stal fjórum boltum en tapaði fimm. Lýsendur dásömuðu mjög þann leikmann en meðan hann var inn á vellinum töpuðu heimamenn með 22 stigum!
Bæði liðin söknuðu fyrirliða sinna; Helgi Rafn er puttabrotinn hjá Stólum og Logi Gunn er meiddur í liði Njarðíkinga. Þeir bíða einnig spenntir eftir að Haukur Helgi komist á ról eftir erfið meiðsli. Með sigrinum komst lið Tindastóls upp í 2.-4 sæti ásamt Íslandsmeisturum Þórs og liði Keflavíkur. Grindvíkingar tróna á toppi deildarinnar en hafa leikið fleiri leiki en næstu lið. Næstkomandi fimmtudag mæta nýliðar Vestra í heimsókn í Síkið og þá má ekkert slaka á. Áfram Tindastóll!
Tölfræði af vef KKÍ >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.