Tindastólshópurinn farinn til Eistlands

Glæsilegur hópur. MYND DAVÍÐ MÁR
Glæsilegur hópur. MYND DAVÍÐ MÁR

Á Facebooksíðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir að meistaraflokkur karla lagði land undir fót og hélt af stað til Eistlands þar sem þeir munu taka þátt í forkeppni FIBA Europe Cup. Tindastóll varð íslandsmeistari í vor og áttu þeir því rétt á ásamt fjórum efstu liðum deildarinnar að sækja um þátttöku í þessari keppni. Um er að ræða þriggja liða riðil í forkeppni og mun það lið sem verður í fyrsta sæti tryggja sér þátttöku í riðlakeppni mótsins og er þá keppt heima og að heiman í fjögurra liða riðlum.

Liðið hélt til Reykjavíkur laugardaginn 1.október með stoppi í Varmá í Mosfellsbæ þar sem þeir léku æfingaleik við Stjörnuna og var það lokaþáttur í undirbúningnum fyrir ferðina til Eistlands. Stjarnan fór með sigur af hólmi 74-69. Að leik loknum bauð Hamborgarafabrikkan liðinu í kvöldverð.

Hópurinn hélt svo af stað klukkan 05:00 í gærmorgun til Keflavíkur. Þar tók þeirra maður, Brynjar Rafn Birgisson, stóri bróðir Péturs Rúnars á móti liðinu og sá um að innritun hópsins gengi vel fyrir sig. Jómfrúin sá svo til þess að hópurinn færi ekki svangur úr landi og bauð mannskapnum í morgunmat. Ferðalangarnir  tala um hversu dýrmætt það sé að eiga gott fólk að og þakka Hamborgarafabrikkunni, Brynjari og Jómfrúinni kærlega fyrir sig.

Tindastólshópurinn flaug til Arlanda í Svíþjóð þar sem var stutt stopp áður en flogið var til Tallinn og þaðan svo tveggja tíma rútuferð til Pärna. Hópurinn mætti svo á hótel eftir gott ferðalag. Í dag mánudaginn 2. október er æfing hjá liðinu.

Fyrsti leikur Tindastóls er svo á morgun 3. október kl. 16:00 á íslenskum tíma á móti heimamönnum í Pärnu.

Miðvikudaginn 4. október leikur Tindastóll svo seinni leik sinn í riðlinum og er sá leikur á móti BC Trepca frá Kósóvó og hefst hann einnig kl. 16:00 á íslenskum tíma.

Hægt verður að fylgjast með leikjum Tindastóls á heimasíðu FIBA og er tengil með öllum upplýsingum um mótið hér- https://www.fiba.basketball/europecup/23-24

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir