Tindastólshjartað risastórt :: Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2022
Íþróttafélagið Molduxar á Sauðárkróki hélt sitt 29. jólamót í körfubolta annan dag jóla í íþróttahúsinu þar sem ungar og gamlar kempur setja saman lið og hafa gaman. Árið 2015 var ákveðið á Allsherjarþingi Molduxa að framvegis yrði fyrir mót veitt samfélagsviðurkenning Molduxa þeim einstaklingi sem þykir hafa með störfum sínum glætt samfélagið á einhvern hátt.
Það var Skúli V. Jónsson sem fyrstur manna fékk þann heiður að taka á móti Samfélagsviðurkenningunni en árið eftir fékk þau Rannveig Helgadóttir, Kári Marísson 2017, Hrafnhildur Pétursdóttir 2018 og árið 2019 kom hún í hlut Árna Stefánssonar. Covid-árin voru ekki haldin mót og því ekki heldur Samfélagsviðurkenning. Það var því með mikilli ánægju að Björn Hansen á Sjávarborg, eða Bjössi á Borg eins og hann er oftast kallaður, var sæmdur Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2022.
Edda Haraldsdóttir, tekur við viðurkenningu úr höndum
Geirs Eyjólfssonar, foringja Molduxa, fyrir hönd
eiginmanns síns Björns Hansen sem barist hefur
við illvígan sjúkdóm undanfarin misseri og átti ekk
i heimangengt þennan dag. Mynd: Jóhann Sigmarsson.
Bjössi er fæddur 30. desember árið 1956 á Selfossi þar sem hann bjó með foreldrum sínum í tvö ár en þá fluttist fjölskyldan til Akureyrar. Þar stundaði hann hefðbundnar íþróttir í grunnskóla og æfði m.a. sund, handbolta og körfubolta með Þór á unga aldri. Til gamans má nefna það að hinn goðsagnakenndi þjálfari og körfuboltaspekingur Einar Bollason þjálfaði Bjössa um tíma. Ekki varð íþróttaferill hans þó langur því alla íþróttaiðkun varð hann að leggja niður eftir að hann meiddist á fæti og því fóru skórnir á hilluna, eins og stundum er sagt. Þegar skórnir voru þangað komnir er kannski hægt að segja að reiðstígvélin hafi verið dregin fram því þó að Bjössi hafi átt lögheimili á Akureyri öll sín ungdómsár fékk hann einnig skagfirskt uppeldi þar sem hann var í sveit í níu sumur í Áshildarholti en þangað kom hann fyrst sjö ára gamall, og hestarnir aldrei langt undan.
Árið 1972 fór Bjössi í Hólaskóla og þá loksins hægt að segja að hann væri alkominn í Skagafjörðinn enda kynntist hann konuefni sínu, Eddu Haraldsdóttur, heimasætu á Sjávarborg, sem er næsti bær við Áshildarholt. Saman eiga þau tvö börn Margréti og Harald og barnabörnin eru orðin fimm.
Bjössi á gæðingi sínum fyrir örfáum árum en margan
keppnishestinn hefur hann ræktað í igegnum tíðina.
Aðsend mynd.
Bjössi segir að í Áshildarholti hafi hann kynnst góðum hestum og verið viðloðandi hestamennsku æ síðan og m.a. ræktað afburða keppnishross, Íslandsmeistara og heimsmeistara. Þá fékk Hestamannafélagið Léttfeti að njóta starfskrafta hans, bæði í stjórn og ýmsum nefndum. Meðfram hestamennsku vann Bjössi sem verkamaður fyrstu árin en fór svo á sjóinn í nokkur ár en kom aftur í land 1981 og ráðinn verkstjóri í fiskvinnslunni Skildi. Ýmsum öðrum störfum hefur Bjössi sinnt og gert með sóma.
Íþróttaáhuginn var alltaf mikill og ekki síst á körfubolta og segist hann vera mikill Boston Celtics maður. Tindastóll var þó nærri og fljótlega fór hann að leggja körfuboltanum lið með ýmsum hætti og hefur hann starfað í stjórnum og sinnt ófáum verkefnum, m.a. ekið ófáa kílómetrana landið þvert og endilangt með keppnisfólk á liðsrútu eða einkabíl.
Þegar hann var spurður um hvað væri eftirminnilegast á ferlinum svaraði hann því til að stundin í Laugardalshöllinni, í janúar 2018, þegar Tindastóll varð bikarmeistari í Maltbikarnum í körfunni hafi verið stórkostleg enda Tindastólshjartað stórt og getur allt stuðningsfólk Tindastóls tekið undir með honum í því. Þá hafi ýmislegt skemmtilegt gerst í Hestamannafélaginu og minnist hann margra góðra hestaferða í góðum félagsskap.
Í lokin vill Bjössi koma á framfæri þakklæti til samstarfsmanna í gegnum árin og segist þakklátur að hafa kynnst öllu því fólki sem með honum hefur unnið í leik og starfi.
Við sem höfum notið samstarfs og vináttu Bjössa í gegnum tíðina þökkum fyrir okkur.
/Molduxar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.