Tindastóll tryggði sér sæti í 2. deild með sigri á Víði

Ragnar fagnar. Ragnar Þór Gunnarsson gerði fyrsta mark leiksins og fagnar hér glaðbeittur ásamt þeim Fannari Kolbeins og Stephen Walmsley. Víðismenn lítið ánægðir að sjálfsögðu.  MYND: ÓAB
Ragnar fagnar. Ragnar Þór Gunnarsson gerði fyrsta mark leiksins og fagnar hér glaðbeittur ásamt þeim Fannari Kolbeins og Stephen Walmsley. Víðismenn lítið ánægðir að sjálfsögðu. MYND: ÓAB

Topplið 3. deildar, Tindastóll og Víðir í Garði, mættust á Sauðárkróksvelli í gær í rjómablíðu. Leikurinn var jafn og spennandi og bæði lið ætluðu sér klárlega sigur. Þegar upp var staðið voru það heimamenn sem sigruðu 2-0 og tryggðu sér sæti í 2. deild að ári þrátt fyrir að enn sé fjórum umferðum ólokið. Glæsilegur árangur Tindastólsmanna sem hafa nú unnið þrettán leiki í röð í deildinni og geri aðrir betur!

Sem fyrr segir voru kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar í gær, stillt og hlýtt og völlurinn iðagrænn í sólinni. Tindastóll byrjaði leikinn betur en smá saman náðu gestirnir yfirhöndinni, þeir voru grimmari og gekk betur að halda boltanum. Varnir beggja liða voru þó sterkar og gáfu fá færi á sér.  Af markmönnunum var það Mohammad í marki Tindastóls sem hafði meira að gera og hann greip nokkrum sinnum mjög vel inn í, varði til að mynda frábærlega þegar Stojkovic átti hörkuskot úr góðu færi. Staðan í hálfleik 0-0.

Tindastólsmenn komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og gáfu nú ekkert eftir í baráttunni. Þeir uppskáru mark á 52. mínútu en þá var Ingvi Hrannar sneiddur niður á vítateigslínunni og dómari leiksins ákvað að dæma aukaspyrnu frekar en víti. Ragnar Þór Gunnarsson tók spyrnuna sem fór af veggnum og í vinstra markhornið án þess að Eyþór Guðjónsson kæmi nokkrum vörnum við.

Ef Víðismenn ætluðu sér að gera atlögu að efsta sæti deildarinnar var ljóst að þeir þurftu að bæta í sóknarleikinn og það hentaði Stólunum ágætlega sem klöppuðu fyrir hverju atviki þar sem þeir (Stólarnir) gerðu vel og jafnvel þegar Víðismenn klikkuðu. Þetta pirraði augljóslega gestina talsvert. Þeir vildu þó fá víti þegar um 25. mínútur voru eftir þegar Stamenkovic féll í teignum eftir að Mohammad hafði farið á móti honum. Dómarinn gerði rétt í stöðunni og dæmdi útspark því bæði hafði Stamenkovic sett boltann út af og Mohammad braut einfaldlega ekki á honum. Vilhjálmur Kaldal frískaði upp á sóknarleik Tindastóls þegar hann kom inn á og á 83. mínútu kláraði Fannar Örn Kolbeinsson leikinn fyrir Stólana. Heldur klikkaði dekkningin hjá Víðismanninum sem átti að passa Fannar í hornspyrnu og hann skallaði boltann af öryggi í markið af fjærstöng. Lokatölur 2-0.

Að leik loknum varð síðan ljóst að sætið í 2. deild var gulltryggt þar sem Einherji, sem átti agnarsmáan séns á sæti í 2. deild, tapaði sínum leik. Lið Víðis er klárlega besta liðið sem Stólarnir hafa fengið í heimsókn í sumar og það má mikið vera ef þeir fylgja ekki Tindastólsmönnum upp um deild í haust.

Stólarnir voru vel að sigrinum komnir þegar upp var staðið. Vörnin var þétt og gestirnir áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi. Seinni hálfleikurinn var sérstaklega fínn hjá heimamönnum og baráttan og dugnaðurinn til fyrirmyndar. Þeir erlendu leikmenn sem leikið hafa með Stólunum í sumar hafa verið góð viðbót við hópinn; Muhammad í markinu var mjög góður í gær og vinnusemin í Walmsley og Hogg mögnuð – þessir kappar eru ekki á Króknum sem einhverjar prímadonnur.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Þrótti Vogum suður með sjó en síðasti heimaleikur sumarsins er 3. september kl. 14:00 en þá mæta Vopnfirðingar í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir