Tindastóll með magnaðan sigur á toppliði Aftureldingar

Arnar Ólafs fagnar marki sínu í leiknum með stæl. MYND: ÓAB
Arnar Ólafs fagnar marki sínu í leiknum með stæl. MYND: ÓAB

Það er skammt stórra högga á milli hjá meistaraflokksliðum Tindastóls þessa dagana. Í gær unnu stelpurnar ótrúlegan sigur á Seltjarnarnesi og strákarnir voru augljóslega innspíraðir af þeirra frammistöðu í dag þegar topplið 2. deildar, Afturelding úr Mosfellsbæ, kom í heimsókn. Baráttan var í fyrirrúmi og þegar gestirnir jöfnuðu á lokamínútu venjulegs leiktíma þá stigu Stólarnir upp og Hólmar Skúla tryggði öll stigin með marki í uppbótartíma. Lokatölur 3-2.

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu nánast allan leikinn en spilað var á aðalvellinum í dag og því upplagt færi fyrir rennitæklingar. Afturelding var meira með boltann en lið Tindastóls reyndi að beita skyndisóknum og náðu af og til að byggja upp vænlegar sóknir. Á 20. mínútu fékk Stefan Lamanna boltann á vinstri kantinum, lék upp að vítateig gestanna og skaust síðan eins og elding á milli tveggja varnarmanna, upp að endamörkum og sendi góðan bolta inn á markteig þar sem Sigurður Friðriksson setti boltann í eigið mark undir mikilli pressu. 

Gestirnir virtust hálf hissa á kraftinum í heimamönnum og þó þeir væru áfram mikið með boltann var sóknarleikur þeirra ómarkviss og margar sendingar fram völlinn alveg glataðar. Það var síðan á 44. mínútu sem Tindastólsmenn náðu laglegu spili sem endaði með því að Arnar Ólafs bjó sér til gott skotfæri fyrir utan vítateigsbogann og sendi hárnákvæmt þrumskot í bláhornið hjá Andra Grétarssyni í marki Aftureldingar. Staðan því vænleg í hléi, 2-0.

Ekki byrjaði síðari hálfleikur félega fyrir Stólana því á 48. mínútu varð Fannar Kolbeins fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Eftir því sem leið á síðari hálfleikinn jókst pressa gestanna en Stólunum gekk vel að verjast hornspyrnum og aukaspyrnum sem sendar voru inn á teiginn, þangað til gestirnir náðu frábærri hornspyrnu á 89. mínútu, beint á kollinn á Andra Frey Jónassyni sem sendi óverjand skalla yfir Santiago í marki Tindastóls. 

Næsta stórleik átti hinsvegar dómari leiksins sem sýndi nú þremur mönnum rauða spjaldið en einhver vel valin orð fóru í loftið við varamannaskýli liðanna þannig að Benni og Arnar Skúli, sem báðir voru komnir af velli, og Arnar Hallsson þjálfari Aftureldingar sáu rautt. Þetta var nú ekki beinlínist það sem þunnskipaður hópur Tindastóls þurfti á að halda en áfram gakk!

Staðan semsagt orðin jöfn og stig gefur ekki mikið í bullandi botnbaráttu – eða þá toppbaráttu. Einhverjir hefðu þó búist við að Stólarnir reyndu að verja stigið úr því sem komið var en þeir blésu til sóknar um leið og leikur hófst að nýju og eftir ansi undarlegan varnarleik gestanna voru skyndilega þrír leikmenn Tindastóls á auðum sjó fyrir framan mark Aftureldingar. Boltinn var sendur á Hólmar Skúla sem gat ekki annað en skorað. Gestirnir pirruðust vægast sagt við þetta en þeir reyndu að sjálfsögðu að jafna leikinn. Dómarinn bætti ansi mörgum mínútum við leiktímann og á lokasekúndunum komu gestirnir boltanum í mark Stólanna eftir að Santiago mistókst að eiga almennilega við sendingu inn á teiginn. Heimamönnum létti gríðarlega þegar línuvörðurinn var svo vinsamlegur að lyfta flaggi til marks um rangstöðu og skömmu síðar flautaði dómarinn leikinn af við mikinn fögnuð heimamanna. 

Þetta var algjör höfðingjasigur hjá Tindastóli í dag og seiglan og baráttan til fyrirmyndar. Það voru allir að leggja sig fram og allt annað að sjá liðið nú en gegn Gróttu um síðustu helgi. Um 70 áhorfendur mættu á völlinn og þar af nokkur hópur Mosfellinga og óhætt að fullyrða að í dag fékkst heilmikið drama fyrir peninginn – og góður endir fyrir þá sem styðja Stólana.

Þrátt fyrir sigurinn eru Stólarnir enn í fallsæti, með 10 stig, en eru nú komnir í skottið á þremur öðrum liðum; Viði Garði, Leikni Fáskrúðsfirði og Hetti Egiilsstöðum. Huginn Seyðisfirði er hinsvegar í tólfta og neðsta sæti 2. deildar með fimm stig. Það verður því væntanlega hart barist næstu vikurnar en það er ljóst að með fullri einbeitingu og algjörri baráttu þá getur lið Tindastóls gert öllum liðum deildarinnar erfitt fyrir. Næsti leikur er hér heima á miðvikudag en þá mæta Þróttarar úr Vogum á Krókinn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir