Tindastóll - KR í kvöld – Allir í Síkið!

Pétur Rúnar og Viðar Ágústsson á góðri stund með landsliði Íslands. Spennandi verður að fylgjast með þeim kumpánum í kvöld. Mynd tekin af Fésbókarsíðu Viðars.
Pétur Rúnar og Viðar Ágústsson á góðri stund með landsliði Íslands. Spennandi verður að fylgjast með þeim kumpánum í kvöld. Mynd tekin af Fésbókarsíðu Viðars.

Það má búast við baráttuleik þegar KR mætir Tindastóli í Síkinu í kvöld.  Tindastóll sat á toppi úrvalsdeildarinnar yfir jólin með 18 stig líkt og Stjarnan sem steig eitt fet áfram í gær eftir sigurleik gegn Þór Akureyri. KR nartar í hæla Tindastóls með 16 stig og nú hefur verið uppljóstrað að landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson muni leika sinn fyrsta leik með KR síðan árið 2009.

Eftir því sem best er vitað kemur Tindastólsliðið í fínu standi út úr jólafríinu og meðal annars verður Viðar Ágústsson í búningi í kvöld eftir langa fjarveru en hann meiddist á ökkla í fyrri KR leiknum 7. október sl. Sagðist hann í samtali við Feyki vera í fínu lagi og spenntur yfir að fá að taka þátt í leiknum.

„Ég er mjög spenntur og hlakka til kvöldsins. Ég hef ekki spilað síðan í fyrri KR leiknum þegar ég meiddist,“ segir Viðar. Aðspurður um aðkomu landsliðsmannsins Jóns Arnórs í KR segir Viðar það breyta litlu. „Það skiptir engu máli, það er bara skemmtilegt að spila við þá bestu og maður kemst varla nær því en þetta,“ segir Viðar og er sannfærður um sigur sinna manna. „Við ætlum að vinna. Spái að við höfum þetta með 10 stigum!“

Samkvæmt heimasíðu Tindastóls hafa Stólarnir unnið fimm af síðustu sex heimaleikjum gegn KR svo það má búast við hörkuslag í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður hann sýndur á Stöð2 sport. Þá verða hamborgararnir á sínum stað, 1.000.- kr. með gosi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir