Tilsjónarmaður stjórnar rekstri Hólaskóla
Gísli Sverrir Árnason hefur verið skipaður tilsjónarmaður Hólaskóla Háskólans á Hólum. Gísli hefur verið hér undanfarna daga þar sem hann hefur meðal annars fundað með helstu lánadrottnum skólans. Þetta kemur fram á forsíðu Feykis sem kemur út í dag.
Líkt og Feykir.is greindi frá um helgina útilokaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ekki í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að Háskólinn á Hólum ,sem kom að hennar sögn með mikinn skuldahala með sér frá Landbúnaðarráðneytinu, yrði sameinaður öðrum. Í samtali við Feyki kannaðist menntamálaráðherra vel við þessi orð en sagði jafnframt að til þess kæmi ekki nema ef engar aðrar leiðir væru færar. Ætlunin væri enn að gera Hóla að sjálfseignastofnun. –Við erum að leita allra leiða til þess að halda uppi því þjónustustigi sem verið hefur og að skólarnir séu opnir almenningi og bjóði upp á fjölbreyttar námsleiðir. Eins og staðan er í dag höfum við ekki efni á að hugsa þetta þröngt og erum að leita allra leiða til þess að halda dampi og í þeirri vinnu felst að fara vel yfir alla þætti, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra.
Aðspurður segir Gísli Sverrir að hann líti á það sem sitt hlutverk að tryggja framtíð skólans og segist hann taka það hlutverk sitt mjög alvarlega. –Ég mun leggja mitt að mörkum til þess að reksturinn komist á rétt ról en með öðrum hætti er ekki hægt að tryggja framtíð skólans, segir Gísli Sverrir Árnason, ráðherraskipaður tilsjónamaður Háskólans á Hólum sem nú fer með rekstarstjórn skólans.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.