Tilefni til frekari rannsókna á Hóli
„Það er ekki á hverjum degi sem maður fær símtal um að mannabein hafi komið í ljós við framkvæmdir þótt vissulega gerist það annað slagið. Það kom því verulega á óvart þegar starfsmenn RARIK tilkynntu um fund mannabeina á Hóli í Sæmundarhlíð,“ segir Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, þegar Feykir innir hann eftir beinafundi við bæinn Hól í Sæmundarhlíð sem Feykir.is sagði fyrst frá í ágúst. Guðmundur segir að beinin hafi fundist í grunnum skurði þegar verið var að leggja nýja heimtaug að bænum.
Við gröftinn rákust þeir Sigurður Snorri Gunnarsson og Hjörtur Týr Björnsson á bein sem þeim þóttu torkennileg og varð fljótlega ljóst að það væru mannabein og höfðu samband við Minjastofnun. „Þegar stöðva þarf framkvæmdir vegna fornleifa reynum við hjá Minjastofnun Íslands að bregðast eins skjótt við og kostur er og var ég mættur á staðinn skömmu síðar ásamt Ástu Hermannsdóttur, fornleifafræðingi hjá Byggðasafni Skagfirðinga,“ segir Guðmundur.
Hann tjáir Feyki að í ljós hafi komið að beinin komu úr tveimur gröfum sem skafið hafði verið að hluta til ofan af og hafði verið farið yfir austari helming annarrar þeirrar eða fótendann en höfðaenda hinnar. „Bráðabirgðagreining á beinunum benti til að um karlmenn væri að ræða og hefur það síðan verið staðfest af mannabeinafræðingunum Hildi Gestsdóttur og Guðnýju Zoëga. En þar sem venja var að karlar væru grafnir sunnan kirkju en konur norðan lengi vel á Íslandi, þá var ákveðið að kanna nánar hvort hægt væri að færa heimtaugina í sveig til suðurs. Engar grafir reyndust vera á því svæði og greinilega komið út fyrir kirkjugarðinn en hins vegar voru þar mannvirkjaleifar o.fl. sem þörfnuðust nánari rannsóknar og varð úr að setja strenginn niður í eldri lagnaskurð.“
Kirkjugarður frá því fyrir árið 1100
Guðmundur nefnir að í sniði skurðarins sem beinin fundust í mátti sjá að gjóska sem féll í Heklugosi árið 1300 lá óhreyfð í mannvistarlögum sem huldu graffyllingar beggja grafa og því ljóst að grafirnar höfðu verið teknar allnokkru fyrir þann tíma.
„Hins vegar var ekki ljóst hvort grafirnar væru einnig undir eldra gjóskulagi frá Heklu sem féll árið 1104, þar sem sú gjóska var í rótuðu lagi yfir graffyllingunum. Við nánari rannsókn á skurðinum kom síðar í ljós að grafirnar eru mun fleiri, en beinin í hinum gröfunum liggja dýpra og graffyllingarnar skarast, svo ekki er ljóst hve margar þær eru, en stór hluti þeirra reyndist þó greinilega undir eldra gjóskulaginu frá 1104. Það sýnir svo ekki verði um villst að kirkjugarðurinn hefur verið í notkun á 11. öld og þá þegar verið orðinn þétt grafinn en ekki er hægt að útiloka að haldið hafi verið áfram að grafa í hann eitthvað fram yfir aldamótin 1100. Í norðursniði skurðarins voru jafnframt steinar og torfleifar sem eru að öllum líkindum leifar kirkjunnar á staðnum.
Minjavörður segir að við nánari skoðun á syðri skurðinum hafi komið í ljós tveir torfveggir frá því fyrir 1104, „Annar þeirra mjög líklega hluti af kirkjugarðsveggnum og mátti sjá að hann hefur verið lítið áberandi í landslaginu þegar gjóskan féll árið 1300. Ekki er hægt að segja til um tilgang hins veggjarins en hann hefur verið stæðilegur árið 1104 og þá þegar búinn að standa í allmörg ár ef marka má þykkt lag af rusli og móösku sem kastað hefur verið út fyrir vegginn og hlaðist þar upp áður en Heklugjóskan frá 1104 féll,“ segir Guðmundur og bætir við að í þessum ruslalögum hafi fundist talsvert af vel varðveittum beinum fugla, fiska og húsdýra m.a. tveir svínskjálkar.
„Þessi fornleifafundur hefur nú þegar bætt miklu við sögu jarðarinnar, sem var ekki þekkt úr heimildum fyrr en á 15. öld, og staðfest búsetu og mikil umsvif alla vega aftur til 11. aldar, sem og tilvist kirkju og kirkjugarðs úr frumkristni.“
Næstu skref segir hann vera að ganga frá skýrslu um fundinn og koma völdum gripum til Þjóðminjasafns Íslands. Tíminn verði svo að leiða í ljós hvort farið verði í frekari rannsóknir á staðnum en það er ljóst að það er sannarlega tilefni til þess.
/gg og óab
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.