Þuríður í Delhí dagar 53 - 54
http://www.youtube.com/watch?v=9fkEu_7CULAÉg vaknaði kl. hálfsjö í roki og 17 stiga hita, þokkalegt eða hitt þó heldur og við hliðina á mér rigndi úr loftkælitækinu. Ég hafði gleymt að taka blásturinn af og hækka hitann í 20 gráður áður en við mamma fórum að sofa í gærkvöldi. Ég vissi að mömmu hlaut að vera drullukalt því hún liggur í beinni línu við blásturinn úr tækinu, vonandi hafði hún ekki orðið úti. Nefnilega síðast þegar þetta skeði vaknaði hún af martröð þar sem hana dreymdi að hún væri að verða úti í hríðarbyl.
Ég var rétt sofnuð aftur þegar klukkan hringdi það er ekki einleikið orðið hvað við mæðgur eigum bágt með að koma okkur á fætur orðið og hvað við erum innilega úldnar en allt hefst þetta þó og við vorum mættar niður kl. tíu. Ég gat ekki fundið mikinn mun á vöðvasamdrætti en ég sá mun á styrk þannig að ég er farin að lyfta hnjánum hærra en áður og svo gekk mér svo vel á hálfu spelkunum að nú ætlar Shivanni að láta stytta þær enn meira eða sem sagt saga af þeim járnið sem er upp með lærinu og taka stuðning sem er á lærinu að aftan, það verður fróðlegt að þvælast á þeim svoleiðis. Á morgun á ég svo að vaða út á gólfið á þeim í göngugrindinni, jibbí.
Dr. Ashish kom til að tékka á hvernig ég væri eftir sprautuna í gær og Shivanni fór yfir árangurinn hjá mér frá upphafi á hindí þannig að ég skildi ekkert en kall ljómaði eins og sól í heiði þegar hann sagði mér hvað hún hefði sagt, ég var bara besti paraplegíueinstaklingurinn sem hún hafði fengið á síðastu 2 árum og mér var hrósað svo rosalega að ég bara klökknaði, hann sagði mér, með alveg kringlótt augu að það þyrfti sko hugur að fylgja máli þegar farið væri í endurhæfinguna og ég væri mjög sterk kona bæði líkamlega og andlega og svo rausaði hann eitthvað meira, svo endaði hann sína hvatningar- og lofræðu á því að hann væri komin með markmið fyrir mig, hann ætlar að senda mig heim með einn staf til stuðnings, ekki núna samt heldur á endanum. Ég held bara að augun í mér hafi orðið jafn kringlótt og hans þegar hann sagði þetta. Mitt markmið var að komast á hækjur, einhverntíman en ég held ég breyti því bara og setji markið á staf, það er örugglega betra að setja sér svoldið há markmið, aðalmálið er svo að halda stefnunni réttri þannig að markmiðið náist. Ég segi það enn og aftur það er svoldið gott að hafa lækni sem segir manni bara að hið ómögulega sé hægt, segir það af svo mikilli sannfæringu að maður tekst sjálfur á loft, það fyllir mig allavega eldmóð og þó ég sé jarðbundin og einhverstaðar bakatil mjálmi rödd sem segir mér að halda mig við jörðina þá er samt gott að heyra þetta frá lækni, það gefur mér í það minnsta aukna trú og vonandi getu.
Alla vega voru þau bæði mjög ánægð og hvað get ég þá annað. Shivanni sagði að enginn þeirra paraplegíueinstaklinga sem hún hefði unnið með síðustu tvö árin hefði náð jafn langt í fyrstu meðferðinni hér. Ég bara sveif á montinu út úr salnum, það var ekkert öðruvísi. Það eina sem skyggði á gleði mína eftir æfinguna var að blaðran tók af mér völdin, alltaf jafn óskemmtilegt en kannski eins og doktorarnir segja er hún að hökta í gang, svona smátt og smátt. Í hádeginu þvoði mamma stórþvott og hótaði alveg uppgefin að meira yrði ekki þvegið áður en við færum heim. Hmmm það er þá eins gott að blaðran hlýði mér það sem ég á eftir hér, sagði ég, en hrikalegur lúxus er það nú að hafa mömmu mína til að stjana í kringum mig, enda er hún eins og ungamamma í kringum ungann sinn, að vísu svoldið gamlan unga, stundum held ég nefnilega að ég geti allt sjálf en svo er bara notalegt að fá hjálp, kannski er það lexían sem ég hef þurft að læra í þessu lífi, að ég þurfi ekki að gera allt sjálf, hver veit.
Seinni partinn ákváðum við að halda upp á það að ég gat fært vinstri fótinn aftur á bak í skriðæfingunni í fyrsta sinn, takið eftir því, það hélt ég í upphafi að mér tækist aldrei, og nú er stefnan tekin á City Walk mollið einu sinni enn þar ætlum við að prófa Ala Turka veitingastað sem staðsettur er á jarðhæðinni þannig að við getum borðað úti við hliðina á gosbrunnunum, það verður bara nææææs. Við vorum öll þrjú banhungruð þegar við komum á veitingastaðinn og ég get alveg viðurkennt að ég hreinlega reif í mig kjúllakebab-rúlluna, frönskurnar og kókið líka – hrikalega gott og ég var hrikalega södd og sæl. Eitthvað gekk mér illa að sofna því kl. var að ganga þrjú í nótt þegar ég lognaðist útaf bara ánægð með daginn.
Elsku Heran mín, til hamingju með daginn í dag 23. sept. ástarkveðja mamma.
Dagur 54
Það er kominn 23. september og stelpan mín hún Hera á afmæli í dag orðin 14 ára, ótrúlegt hvað tíminn líður fljótt, það er svo stutt síðan hún var svo lítil og ég hlaupandi á eftir henni nú er hún á hraðferð með að verða fullorðin, stundum líður tíminn alltof hratt.
Einhvernveginn var ég ekki í stuði í dag, svona fer þegar manni er hrósað svona mikið, best að banna það í framtíðinni, hefur greinilega ekki góð áhrif á mig, ég verð alltof montin. Ég prófaði spelkurnar á göngugrindinni út á gólfi aftur því miður var hægri fóturinn með mótbárur og mér rétt tókst að mjaka honum úr stað og stundum mjakaðist hann ekki neitt, meðan vinstri fóturinn tók risaskref, þeir fatta greinilega ekki að þeir eru fastir við sömu manneskjuna. Shivanni horfði á mig og sagði svo, þú ert þreytuleg, þú ferð upp og hvílir þig og kemur eftir hádegi ef þú ert upplögð, annars hvílir þú þig áfram. Ég hef nú bara aldrei fengið svona skipun hér áður og varð satt að segja ekkert rosa kát með þetta en að sjálfsögðu hlýddi ég. Eftir hádegið taldi ég mig vera nægilega hvílda og fór niður í æfingar. Þær gengu sæmilega og jafnvægisæfingarnar alveg brill. Ég var þó á kíkinu því Khristna var niðri um leið og ég og var að gera sínar æfingar og æfa sig á hækjum með spelkur bara á öðrum fætinum, það er svo ótrúlegt að sjá hvað hún er komin með mikinn kraft í fæturna, hún er sko kraftaverkakona, ekki spurning. Annars bætast við ný andlit núna dag frá degi og í þessu holli núna eru flestir yfir fertugt og og fimmtugt með vövarýrnunarsjúkdóma og MS þannig að unga stelpan með Lyme sjúkdómin verður með svoldið fullorðnu fólki, jú og svo með Gab strák sem er á sama aldri en lamaðist þegar hann var á köfunarnámskeiði. Hann fékk háan skaða, en er með hendurnar inni að einhverju leiti. Eftir æfinguna fór ég í rúmið, las pínu og steinsofnaði svo og svaf til hálfsex. Í fyrramálið ætla mamma og Sigurbjörn til Taj Mahal og eiga að leggja af stað kl. fimm, hún hefur áhyggjur af að ég muni ekki spjara mig og færir alla hluti til þannig að ég nái þeim í fyrramálið. Innst inni veit hún þó að þetta eru óþarfa áhyggjur því ég verð í góðum málum og á örugglega eftir að finnast bara gott að þurfa að hugsa um mig sjálf einn dag, svona til að sjá hvort ég geti það ekki örugglega enn eftir alla þessa umhugsun síðustu tvo mánuði. Nú eru dagarnir heldur betur farnir að styttast og ég á ekki eftir nema fimm daga í æfingum, allt í einu er það of lítið þó ég hlakki rosalega til að komast heim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.