„Þurfum að halda áfram að spila góðan varnarleik“
Þriðji leikurinn í einvígi Keflavíkur og Tindastóls fer fram í Keflavík á laugardag og hefst kl. 17:00. Keflvíkingar hafa unnið báða leikina hingað til og eiga möguleika á að sópa Stólunum út úr úrslitakeppninni en eflaust ætla strákarnir okkar að selja sig dýrt. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Baldur Þór Ragnarsson þjálfara Tindastóls sem bendir stuðningsmönnum Stólanna á að gefast ekki upp. „Það er alltaf möguleiki á comebacki.“
Hvað hefurðu verið ánægðastur með í leikjunum gegn Keflavík hingað til? „Ég hef verið ánægður með varnarleikinn okkar í báðum leikjunum, þurfum að gera aðeins betur á nokkrum atriðum þá tökum við leik þrjú.
Hvernig náum við að vinna í Keflavík? „Við þurfum að halda áfram að spila góðan varnarleik, gera betur á Deane þegar hann slippar á körfuna og gera skotin aðeins erfiðari fyrir Hörð Axel. Halda áfram þessari vörn sem við spiluðum á Milka í gær. Halda áfram að grípa hröðu sóknirnar þegar þær gefast og sækja aggresive á körfuna. Þá fáum við góð skot. Hafa Trú á því að við getum unnið þá.“
Hvers vegna hafa Keflvíkingar haft yfirburði í vetur? „Vel samsett lið með háklassa leikmönnum, Hörður og Deane gætu spilað á mjög háu leveli úti í Evrópu ef þeir vildu það. Hörður er líka mikill leiðtogi og stjórnar þessu hrikalega vel. Milka er nátturulega skrímsli í þessari deild. Calvin og Valur skila sínum hlutverkum vel og aukaleikararnir af bekk hafa hitt vel í vetur. Einnig er liðið mjög vel þjálfað af Hjalta.“
Hvað telur þú að hafi verið erfiðast fyrir lið Tindastóls í vetur, hvers vegna gekk ekki betur? „Varnarleikurinn, flæði sóknarlega og liðsheild er allt eitthvað sem þyrfti að vera betra heilt yfir tímabilið. Einnig er deildin orðin töluvert sterkari en í fyrra og árið áður.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.