Þungbær heimsókn Húnvetninga í Sandgerði

Húnvetningar voru ekki alveg sáttir við störf dómaratríósins í gærkvöldi. MYND AF SÍÐU KORMÁKS/HVATAR
Húnvetningar voru ekki alveg sáttir við störf dómaratríósins í gærkvöldi. MYND AF SÍÐU KORMÁKS/HVATAR

Toppliðin í 3. deildinni í knattspyrnu mættust á Brons-vellinum í Sandgerði í gær en þar var um að ræða lið heimamanna í Reyni og húnvetnsku gæðingana í liði Kormáks/Hvatar. Með sigri hefðu gestirnir jafnað Reynismenn að stigum á toppi deildarinnar en sú varð ekki raunin þó um hörkuleik hefði verið að ræða. Sandgerðingar höfðu betur, 3-2, eftir mikinn hasar þar sem tveir gestanna fengu að líta rauða spjaldið.

Kristófer Páll Viðarsson kom liði Reynis yfir á 32. mínútu og hann bætti við marki þremur mínútum síðar. Papa Tecagne lagaði stöðuna fyrir Kormák/Hvöt á 44. mínútu en Jökull Máni Jakobsson kom heimamönnum á ný í tveggja marka forystu á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Fyrra rauða spjald kvöldsins fór á loft á 60. mínútu en þá var Lazar Cordasic sendur í kalda sturtu. Ekki lögðu gestirnir árar í bát því sjö mínútum síðar minnkaði Ismael Moussa muninn í eitt mark á ný og nær komust gestirnir ekki þó svo að þeir hafi skorað jöfnunarmark í uppbótartíma sem aðstoðardómari flaggaði af. Að leik loknum fékk síðan markvörður Kormáks/Hvatar, Uros Djuric, að líta rauða spjaldið hjá dómara leiksins.

Á skeleggri heimasíðu aðdáenda Kormáks/Hvatar er augljóst að dómaratríóið hefur ekki unnið sér heiðurssæti á jólakortalista Húnvetninga en þar er bent á að nokkur lykilatvik leiksins hafi verið algjört klúður hjá tríóinu. Baráttan um að komast upp í 2. deild heldur því áfram hjá Húnvetningum en ljóst að það er högg fyrir lið þeirra að missa tvo mikilvæga leikmenn í bann. Næsti leikur er nefnilega STÓRleikur við liðið í þriðja sæti, Árbæ, og líklegt að úrslit þess leiks muni skera úr um hvaða lið fylgir Reyni upp um deild. Það gæti verið farið að skorta neglur til að naga þegar Árbæingar heimsækja Blönduós 2. september næstkomandi. Áfram Kormákur/Hvöt!

Hér má lesa safaríkari lýsingu á leiknum >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir