Þróttarastúlkur reyndust sterkari
Stelpurnar í Tindastóli/Neista tóku á móti Þrótturum úr Reykjavík í norðangolunni í gær á Sauðárkróksvelli og sýndu fjölmennu stuðnigsliði að þær ætla sér stóra hluti í sumar. Þróttarar uppskáru þó sigur eftir mikla baráttu beggja liða.
Byrjunarlið heimamanna var skipað eftirfarandi leikmönnum: Kristín Halla Eiríksdóttir, Sunna Björk Atladóttir, Elísabet Haraldsdóttir, Snæbjört Pálsdóttir, Þóra Rut Jónsdóttir, Guðný Þóra Guðnadóttir, Gyða Valdís Traustadóttir, Hrafnhildur Guðnadóttir (fyrirliði), Sigríður Heiða Bjarkadóttir, Fríða Rún Jónsdóttir, og Brynhildur Ósk Ólafsdóttir.
Fyrirfram var búist við sterkum Þrótturum sem fengu strax að finna fyrir ákveðnum norðanstelpum sem ekkert gáfu eftir í baráttunni um boltann. Þróttarar léku undan vindi í fyrri hálfleik og tókst illa að hemja boltann og sköpuðu sér fá marktækifæri. Þau skot sem rötuðu á markið átti Kristín Halla sem átti annars fínan leik eins og reyndar allar í liðinu. Heimastúlkur áttu þó engin færi sem vert er að kalla í fyrri hálfleik en sýndu mikla baráttu í vörn og á miðju. Staðan í hálfleik 0-0.
Þróttarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og hentaði þeim betur að spila á móti vindi og uppskáru mark þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en þá skoraði Margrét María Hólmarsdóttir eftir að hafa fengið boltann fyrir fæturnar þegar Kristín Halla varði skot frá Þrótturum en náði ekki að halda boltanum. Aðeins fimm mínútum síðar kom annað mark Þróttara er Ástrós Linda Ásmundsdóttir náði að keyra sig gegn um vörnina og leggja boltann laglega í vinstra hornið. Stuttu síðar fengu heimastúlkur kjörið tækifæri til að minnka muninn er Brynhildur stóð ein andspænis markmanni en inn vildi boltinn ekki heldur sveif yfir þverslána.
Það sem eftir lifði leiks einkenndist af mikilli hörku og tækifærum á báða bóga sem hvorugt liðið náði að nýta sér. Aukaspyrnur heimamanna hefði mátt nýta betur, rétt utan vítateigs og undan vindi. Þessi fyrsti leikur Tindastóls/Neista gefur tilefni til að ætla að stelpurnar eigi eftir að standa sig vel í deildinni í sumar, grimmdin og ákveðnin er til staðar og ef þær nýta færin sín og þétta vörnina örlítið meira geta þær unnið hvaða lið sem er.
Skiptingar hjá Tindastól/Neista:
- Á 52. mín. Erla Björt Björnsdóttir inn fyrir Gyðu Valdísi Traustadóttur
- Á 60. mín. Kristveig Anna Jónsdóttir inn fyrir Sigríði Heiðu Bjarkadóttur
- Á 78. mín. Svava Rún Ingimarsdóttir inn fyrir Elísabetu Haraldsdóttur
- Á 83. mín. Laufey Rún Harðardóttir inn fyrir Þóru Rut Jónsdóttur
- Á 89. mín. Karen Inga Viggósdóttir inn fyrir Fríðu Rún Jónsdóttur
Dómaratríóið Halldór Vilhelm Svavarsson, Birna H Bergstað Þórmundsdóttir og Eðvarð Eðvarðsson áttu góðan dag og stóðu sig með stakri prýði.
Næsti leikur hjá stelpunum er næsta laugardag hér heima og þá fá þær erfiða andstæðinga úr Keflavík sem um helgina kjöldrógu á heimavelli Draupni frá Akureyri 14-1.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.