Þrjú smit til viðbótar á Króknum
Greint er frá því á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra að þrír hafi greinst jákvæðir með covid-19 smit í gær á Sauðárkróki og hafa því alls 14 aðilar greinst frá því fyrir helgi. Þrettán eru í einangrun á Króknum en einn tekur einangrunina út utan svæðisins.
Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra kemur fram að á næstu tveimur dögum ætti staðan að skýrast betur og væntanlega að fækka mikið í sóttkvínni ef að allt gengur upp. Alls eru 314 manns í sóttkví á Norðurlandi vestra og sem fyrr langflestir á Sauðárkróki eða 256.
„Vonum það besta. Aðgerðastjórn vill ítreka reglur um sóttkví og íbúar fari eftir þeim! Alls EKKI er heimilt að fara í bíltúra sem dæmi!!
Góðar stundir,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.