Þórsstúlkur með létta þrennu í leikjunum gegn Tindastóli
Það var engin miskunn í Höllinni á Akureyri þegar Þórsstúlkur fengu stöllur sínar í liði Tindastóls í heimsókn. Oft hefur verið mjótt á mununum og hart barist þegar þessi grannalið hafa mæst en það er einfaldlega staðreynd að í vetur hefur lið Þórs verið langtum betra og það sannaðist í þriðja skiptið á tímabilinu þegar liðin áttust við sl. miðvikudagskvöld. Eftir allsherjar rassskellingu í fyrri hálfleik var staðan 57-23 og lauk leiknum 102-56.
Allir nema einn leikmaður Þórs fengu að stíga dansinn í leiknum og allir sem komu inn á skoruðu. Skotnýting heimastúlkna var talsvert betri en Stólanna og þær tóku næstum því helmingi fleiri fráköst í leiknum, 59 gegn 31. Liðin töpuðu boltanum álíka oft og stálu jafn mörgum boltum.
Sem fyrr segir þá völtuðu Þórsstúlkur yfir gestina í byrjun leiks. Staðan var 4-4 eftir tvær og hálfa mínútu en þá kom 14-0 kafli áður en Emese setti niður íleggju og þá kom 8-0 kaflli frá liði Þórs og staðan 26-6 eftir tæpar átta mínútur. Heimastúlkur unnu báða fyrstu leikhlutana með 17 stiga mun og þrátt fyrir að Stólastúlkur næðu að vinna þriðja leikhluta með einu stigi, 20-21, þá kláruðu Akureyringarnir leikinn af krafti og potuðu sér yfir 100 stigin.
Jayla Johnson var stigahæst Stólastúlkna með 28 stig, Emese Vida gerði 10 stig og tók níu fráköst og Klara Sólveig skilaði átta stigum á töfluna. Hjá liði Þórs var Maddie Sutton atkvæðamest með 22 stig og 17 fráköst, þar af átta sóknarfráköst. „Í spjalli á Þór Sport á YouTube sagði Danni þjálfari Þórs að vitað hefði verið fyrir fram hvert lið Tindastóls leitaði í sóknarleiknum, inn á Jaylu eða Emese, og því hefði upplagið verið að verjast því.
Næst eiga Stólastúlkur heimaleik gegn Breiðablik b og fer hann fram á morgun, laugardag, og hefst kl. 16:00. Lið Blika hefur tapað öllum leikjum sínum í deildinni en Stólastúlkur hafa unnið báða leiki liðanna hingað til af öryggi. Lið Þórs mætir Blikum í kvöld á Akureyri en grannar okkar eru sem stendur í öðru sæti deildarinnar með flott lið, góða breidd og til alls líklegt.
Áfram Tindastóll!
- - - - -
Fréttin hefur verið uppfærð:
Tveir Króksarar leika með liði Þórs en ekki einn eins og sagði upphaflega í fréttinni. Það eru þær Kristín María Snorradóttir og Katrín Eva Óladóttir. Fyrir áramót lék Króksarinn Marín Lind Ágústsdóttir einnig með Þórsurum en hún spilar nú sinn körfubolta með háskólaliði í Bandaríkjunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.