Þórsliðið reyndist sterkara á lokakaflanum

Maddie Sutton og Emese Vida háðu mikla baráttu undir körfunni í gær. Maddie hafði betur því Emese komst snemma í villuvandræði. MYND: HJALTI ÁRNA
Maddie Sutton og Emese Vida háðu mikla baráttu undir körfunni í gær. Maddie hafði betur því Emese komst snemma í villuvandræði. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls og Þórs Akureyri mættust í Síkinu í gær í 10. umferð 1. deildar kvenna. Þórsliðið, sem er ansi vel mannað, hafði yfirhöndina lengstum en eftir jafnan fyrri hálfleik náði lið Tindastóls forystunni fyrir hlé. Það var síðan í fjórða leikhluta sem Akureyringar, með Maddie Sutton og Marínu Lind í miklum ham, náðu að hrifsa stigin frá Stólastúlkum og unnu góðan sigur, lokatölur 66-87.

Eva og Chloe gerðu fyrstu fjögur stigin í leiknum en Hrefna Ottós og Eva Wium svöruðu með 14 stigum og gestirnir með undirtökin snemma leiks. Pat tók þá leikhlé og náði að laga leik Stólastúlkna sem hófu að saxa á forskot gestanna. Emese gerði síðustu körfu fyrsta leikhluta og staðan 18-22. Hún hóf annan leikhluta með þristi en Marín Lind og Maddie reyndust sínum gömlu félögum erfiðar og sáu til þess að gestirnir héldu frumkvæðinu. Emese fékk sína þriðju villu þegar tæpar 14 mínútur voru liðnar, eftir hafa brotið þrisvar á Maddie, og var kippt í kæli. Lið Tindastóls nýttu síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiks vel og Chloe kom Stólastúlkum yfir og Eva og Ingigerður bættu í og Stólastúlkur náðu sex stiga forystu, 42-36. Marín Lind svaraði með þristi fyrir hlé og staðan 42-39 í hálfleik.

Liðin hertu á varnarleiknum í þriðja leikhluta og nú var lítið skorað. Lið Tindastóls hélt forystunni fram yfir miðjan leikhlutann en gestirnir skriðu yfir eftir íleggju frá Heiðu Hlín. Rut Herner kom liði Þórs í 48-52 en Chloe svaraði með þristi. Marín Lind setti niður tvö víti fyrir Þór rétt fyrir lok þriðja leikhluta og staðan 51-54 fyrir lokaátökin. Hart var barist í upphafi fjórða leikhluta en það var Þórsliðið sem reyndist sterkara, náði að auka forskot sitt hægt og bítandi, mest fyrir tilstilli Marínar, og þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum höfðu gestirnir náð tíu stiga forystu. Eftir það reyndist eftirleikurinn auðveldur.

Það var auðvitað skarð fyrir skildi í liði Tindastóls að eftir að hafa fengið þrjár villur í fyrri hálfleik þá náði Emese aðeins að spila í um þrjár mínútur í síðari hálfleik áður en hún var komin með fimm villur og náði því aðeins að spila tæpar 16 mínútur í leiknum. Á þessum tíma lék hún vel og hafði gert 15 stig og hirt ellefu fráköst. Frákastadrottningin Maddie Sutton tók 22 fráköst í leiknum, gerði 23 stig en hún spilaði aftur á móti tæpar 39 mínútur.

Chloe var stigahæst Stólastúlkna með 30 stig, Emese sem fyrr segir með 15, Eva Rún gerði átta stig og Fanney setti sjö. Maddie Sutton gerði 23 stig fyrir Þór, Marín Lind og Hrefna voru með 17 hvor og Heiða Hlín tíu. Munurinn á liðunum að þessu sinni lá í fráköstunum því lið Þórs slátraði heimastúlkum á því sviði, tók 62 fráköst á meðan Stólastúlkur náði 35. Munaði þar að sjálfsögðu mikið um að lið Tindastóls var án Emese meirihluta leiktímans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir