Þórarinn í Öldunni sækist eftir formennsku í Starfsgreinasambandinu

Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags. Aðsend mynd.
Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags. Aðsend mynd.

Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði, býður sig fram til formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands, nú þegar Björn Snæbjörnsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér. Þórarinn segir Björn hafa reynst farsæll formaður og tekist að halda góðum friði og starfsanda innan sambandsins í sinni formannstíð.

„Nái ég kjöri, mun ég beita mér fyrir því að sætta ólík sjónarmið með virku samráði við forystu allra félaga innan SGS. Ég legg höfuðáherslu á að allar raddir fái að heyrast og að tekið verði tillit til ólíkra sjónarmiða, með sátt og samráði. Á sama hátt og við leggjum mikið upp úr því að hlustað sé á raddir smáþjóða í alþjóðlegu samstarfi, vil ég að tekið sé tillit til hagsmuna og sjónarmiða allra aðildarfélaga burtséð frá stærð þeirra og að sjálfsákvörðunarréttur einstakra félaga sé hafður í hávegum.“

Þórarinn bendir á að framundan séu mikilvæg verkefni, meðal annars gerð kjarasamninga. „Í þeirri vinnu skiptir miklu máli að félögin innan SGS gangi í takt og taki tillit hvert til annars, hvernig svo sem þau kunna að haga vinnunni við gerð samninganna. Það þjónar engum tilgangi að við eyðum kröftunum í innbyrðis átök og gagnast engum nema viðsemjendum okkar. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að Starfsgreinasambandið sé það afl sem getur með samtakamættinum náð afgerandi árangri fyrir félagsmenn,“ segir hann.

Kosningar til formanns, varaformanns og framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambandsins fara fram á lokadegi 8. þings sambandsins sem sett var í dag. Gert er ráð fyrir að nýr formaður Starfsgreinasambands Íslands slíti þingi kl. 12:00 nk. föstudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir