Þök fjúka og enn ein veðurviðvörunin í kortunum
Björgunarsveitir í Húnavatnssýslum sinntu nokkrum útköllum er óveðrið gekk yfir landið í fyrrinótt en m.a. fauk þak af fjárhúsi í Víðidalstungu II í Víðidal þar sem 600 kindur voru á húsi. Á vef RÚV kemur fram að þak hafi fokið að hluta á öðru fjárhúsi í Húnaþingi. Skepnunum varð þó ekki meint af. Gul veðurviðvörun fyrir Norðurland vestra eftir hádegið.
„Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra er enn að koma í ljós tjón sem varð í nótt. Búist er við að bæti enn á listann. Rafmagnsstaurar brotnuðu sem olli rafmagnstruflunum í Hrútafirði. Í Skagafirði var veður skaplegra en þó voru þar nokkur útköll. Aðstoða þurfti vegfarendur sem festust í snjó á Tröllaskaga í nótt,“ segir á ruv.is.
Í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær var m.a. rætt við Sofiu Krantz, bónda í Víðidalstungu, sjá HÉR.
Ekkert lát er á lægðarkomum og tilheyrandi veðurofsa því Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Breiðafjörð og Vestfirði en fyrir Strandir og Norðurland vestra og Norðurland eystra er viðvörunin gul og tekur gildi um og upp úr hádegi í dag.
Fyrir Norðurland vestra hefur verið spáð norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi og lélegu skyggni, fyrst á Ströndum. Versnandi akstursskilyrði og afmarkaðar samgöngutruflanir eru líklegar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Gengur í suðaustan 18-25 m/s með snjókomu og síðar talsverðri slyddu eða rigningu, en úrkomulítið NA-lands. Hlýnandi, hiti 1 til 6 stig síðdegis en í kringum frostmark NA-til. Hægari sunnanátt og skúrir eða slydduél um kvöldið.
Á laugardag:
Sunnan og suðvestan 8-15 og él, en bjart með köflum um landið NA-vert. Kólnandi, frost víða 0 til 5 stig um kvöldið.
Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt og él á víð og dreif, frost 0 til 8 stig.
Á mánudag:
Norðaustanátt og snjókoma, en úrkomulítið V-til á landinu. Frost 0 til 8 stig. Slydda eða rigning SA-lands og hiti 0 til 5 stig.
Á þriðjudag:
Norðlæg eða breytileg átt og þurrt, en dálítil él N-lands. Frost 0 til 10 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.