Þjóðarhöll í íþróttum – framkvæmdanefnd hefur störf
Framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum hóf störf í dag en í henni starfar sem fulltrúi ríkisins Þórey Edda Elísdóttir, á Hvammstanga. Hlutverk framkvæmdanefndar er að leiða vinnu vegna hönnunar, útboðs og hvernig staðið verður að fjármögnun þjóðarhallar og undirbúa ákvörðun um útfærslu og rekstrarform. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar til fjölmiðla.
Nefndinni er falið að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hallarinnar en stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið árið 2025.
„Með stofnun framkvæmdanefndar færumst við skrefi nær því að hefja framkvæmdir á nýrri þjóðarhöll. Ég tel að við séum með öflugan hóp fagfólks sem eigi eftir að skila góðu verki,“ Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir það mjög mikilvægt að koma undirbúningi Þjóðarhallar af stað sem ekki er einungis ætlað að stórbæta umgjörð landsliða og leikja og vera fjölnota hús fyrir þjóðina. „Megintilgangurinn með aðkomu borgarinnar að verkefninu er að auka og stórbæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir börn og unglinga í Laugardal. Þróttur og Ármann og skólarnir í hverfinu verða eftir þetta með fyrsta flokks aðstöðu.“
Framkvæmdanefndin mun skila upplýsingum um framgang verkefnisins reglulega til starfshóps um uppbyggingu þjóðarleikvanga í íþróttum en hún starfar í samráði við ráðgjafaráð skipað hagsmunaaðilum og öðrum notendum hallarinnar til að hún uppfylli þarfir sem flestra.
Framkvæmdanefnd um þjóðarhöll í innanhússíþróttum skipa:
Gunnar Einarsson formaðurJón Viðar Guðjónsson fulltrúi ríkisins
Þórey Edda Elísdóttir fulltrúi ríkisins
Ólöf Örvarsdóttir fulltrúi Reykjavíkurborgar
Ómar Einarsson fulltrúi Reykjavíkurborgar
Ráðinn verður starfsmaður sem vinnur með framkvæmdanefnd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.