Þingmenn fá greiddan ferðakostnað í eigin kjördæmi
BB segir frá því að þingmenn fá greiddan ferðakostnað í eigin kjördæmi. Þingmenn NV-kjördæmis, sem og þingmenn annarra kjördæma en Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis, fá fasta upphæð mánaðarlega, sem nemur 90.700 krónum á árinu 2009, til að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði í Reykjavík eða nágrenni.
Eigi þeir aðalheimili á höfuðborgarsvæðinu er fjárhæðinni ætlað að standa undir sams konar kostnaði í kjördæminu. Þá getur þingmaður, sem þarf að halda tvö heimili, sótt um 40% álag. Ferðist þingmenn utan höfuðborgarsvæðisins, daglega á milli Alþingis og heimilis, má endurgreiða ferðakostnaðinn en þá er einn þriðji húsnæðiskostnaðar greiddur. Þetta kemur fram í handbók um þingstörfin.
Varðandi ferðakostnað innanlands kemur fram að almenna reglan er sú að þingmenn eiga rétt á að fá greiddan ferðakostnað í eigin kjördæmi, svo og kostnað við ferðir milli heimilis og Reykjavíkur og fundarferðir í önnur kjördæmi. Föst mánaðarleg greiðsla ferðakostnaðar í eigin kjördæmi skal standa undir ferðakostnaði og uppihaldi í kjördæminu. Fjárhæðin á árinu 2009 er 61.400 krónur á mánuði.
Í handbókinni kemur einnig fram að þingmenn utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis eiga rétt á að fá endurgreiddan vikulegan ferðakostnað milli heimilis og Alþingis. Þingmenn sem búa utan Reykjavíkur og kjósa að ferðast daglega til og frá vinnustað fá kostnaðinn endurgreiddan en fá þá greiddan einn þriðja hluta húsnæðiskostnaðar sem á að standa undir tilfallandi gistingu í Reykjavík.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.