„Þetta verður hörkuleikur,“ segir Hannes Ingi um viðureign Stóla og Njarðvíkur í kvöld
Í kvöld fer fram þriðji leikur Tindastóls og Njarðvíkur í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta og með sigri komast Stólar í úrslitaleikinn. Leikurinn fer fram í Ljónagryfju Njarðvíkinga og miðaframboð afar takmarkað, segir á Facebooksíðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls en þar er fólk hvatt til að næla sér í miða á símaappinu Stubbi. Feykir náði í Hannes Inga Másson sem hefur bullandi trú á að Stólar fari með sigur af hólmi.
Hannes segir stemninguna í hópnum mjög góða, leikmenn vel gíraðir og tilbúnir í slaginn enda einn mikilvægasti leikur tímabilsins. Njarðvíkingar verða líklega á sömu slóðum, vel gíraðir og tilbúnir, og býst Hannes við hörkuleik í kvöld líkt og hinir tveir sem Stólar náðu að vinna eftir harða baráttu. Í síðasta leik héldu margir að sigurinn yrði Suðurnesjamanna en með ótrúlegum viðsnúningi átu Stólar 18 stiga mun upp í fjórða leikhluta. Hvað gerðist Hannes?
„Það kom smá kafli í lok þriðja leikhlutans þar sem þeir spiluðu betur en við vitum að þetta er er ekki búið fyrr en það er búið,“ segir Hannes sem missti aldrei trúna á að liðið gæti unni leikinn.
„Maður hafði alltaf trú á því að vinna leikinn þrátt fyrir að vera 18 stigum undir í byrjun fjórða leikhluta. Maður hættir ekkert að trúa því. Við vitum hvað við getum og hversu gott lið við erum.“
Þið hafið þá trú á því að hafa þetta í kvöld?
„Já, við höfum bullandi trú á því. Við þurfum náttúrulega að spila mjög vel því þeir eru með mjög gott lið. Við þurfum að spila okkar besta leik til þess að vinna í kvöld.“
Hannes er gríðarlega öflugur leikmaður, snöggur og skankalangur og hefur fengið tækifæri í síðustu leikjum. Ekki brást hann áhorfendum með lungamjúkum þristum og hörku vörn.
„Maður er alltaf tilbúinn að koma inn á og gera það sem þarf. Kem inn á og nýti þann tíma sem maður fær og gefur allt í það og skilur ekkert eftir. Þannig að fyrir mig er þetta geggjað að geta komið mínu til skila og þá helst varnarlega og sóknarlega eitthvað aðeins.“
Það er allir glaðir að sjá Nesa inn á, finnur þú fyrir því?
„Já, maður finnur það og fólk er bara mjög ánægt með þetta.“
Ætlarðu að þrusa þristum í kvöld?
„Ætli ég verði ekki að lofa einum eða tveimur, það er algjört lámark,“ segir Hannes hógværðin uppmáluð.
Stuðningur áhorfenda, þar sem Grettismenn fara fremstir í flokki, hefur vakið verðskuldaða athygli. Allir eru sammála um að hann skipti miklu máli og hjálpi til í baráttunni.
„Þeir eru gríðarlega mikilvægir og eru partur af þessu „kombakki“ sem við áttum í síðasta leik. Að vera með þennan stuðning er varla hægt að standa sig ekki vel. Þetta munar rosalega miklu og við erum að fá bæði á heimavelli og útivelli hörku stemningu. Ég býst við að það verði brjáluð stemning í kvöld og hvet alla til að mæta og bið þá sem komast ekki að njóta þess að horfa á leikinn í sjónvarpinu. Þetta verður hörkuleikur.“
Nú hefur verið opnuð heimasíða Grettismenn.is þar sem hægt er að nálgast stuðningsmannasöngva Grettismanna til leikmanna og látum við hvatningarorð til Hannesar duga hér og hvetjum alla til að æfa sig heima undir hókí pókí laginu:
Hann setur tvistinn ofan í,
þristinn ofaní,
eitt tvö þrjú stig og elskar þetta lið.
Hann gerir hókí pókí og snýr sér síðan við,
Nesi, við elskum þig!
Ó, Nesi Nesi Maásson,
Ó, Nesi Nesi Maásson,
Ó, Nesi Nesi Maásson,
Nesi, við elskum þig!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.