„Þetta er allt að koma,“ segir VALDÍS

Nú fyrir stuttu sendi Króksarinn VALDÍS nýtt lag út í netheima en það er ljúf ballaða sem kallast story for you sem hún segir að fjalli um að sakna gömlu tímanna „...þegar maður var ungur og áhyggjulaus.“ Lagið er samið af Rasmus Ladefoged Lampon og Isu Tengblad, Halldór Smárason spilar á píanó og Anton Ísak pródúseraði. Feykir tók púlsinn á Valdísi Valbjörnsdóttur í hádeginu.

Síðast þegar Feykir heyrði í Valdísi hafði hún verið valin til að taka þátt í verkefninu Vindur í seglum sem var átak fyrir konurí tónlist, og önnur kyngervi í minnihluta, og ætlað til að styðja áhugasama höfunda við að fóta sig og koma verkum sínum á framfæri. Stefndi hún í framhaldinu að því að gefa út stóra plötu en Covid-19 greip harkalega inn í þau plön og Valdís var ein þeirra sem strítt hefur við mikil veikindi í kjölfar Covid. Það lá beint við að spyrja hvernig hún hefði það og hvort veikindin hefðu ruglað tónlistarplönin. „Já, veikindin settu töluvert strik í reikninginn og ég glími enn við eftirköst sem hrjá mig í daglegu lífi. Ég er ennþá í endurhæfingu á Reykjalundi alla virka daga en þetta er allt að koma. Í kjölfar COVID veikindanna hefur hentað mér betur að gefa út singla þar sem orkan hefur verið af skornum skammti. Platan verður að bíða betri tíma,“ segir Valdís.

Ertu með einhver önnur verkefni tengd tónlist? „Já ég er farin að vinna með fleiri tónlistarmönnum sem eru með misjafnar áherslur svo það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.“

Hvað fékkstu út úr verkefninu Vind í seglin? „Vindur í seglum var frábært verkefni. Ég fékk tækifæri til að vinna með og fá ráðleggingar frá reyndu fólki í bransanum og ég lærði mjög mikið.“Í lokin sprurði Feykir Valdísi um hvaða tónlist hún væri að hlusta á þessa dagana. „Ég er búin að hlusta mikið á nýju Sigrid plötuna „How To Let Go“. Hef líka verið að hlusta á Rex Orange County, RAES, Eddie Benjamin og Joshua Bassett.“

Í lokin má geta þess að VALDÍS gaf út annað lag fyrr á árinu, Onto You, en nú má finna sex skotheld lög með henni á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir