Það var lagið strákar!

Sigurður Gunnar Þorsteinsson ræðst að körfu Stjörnunnar. MYND: HJALTI ÁRNA
Sigurður Gunnar Þorsteinsson ræðst að körfu Stjörnunnar. MYND: HJALTI ÁRNA

Það voru sorglega fáir stuðningsmenn Tindastóls (þó 208 samkvæmt skýrslu) sem sáu sér fært að mæta í Síkið í gær þar sem lið Stólanna og Stjörnunnar hristu fram úr erminni hina bestu skemmtun. Við skulum vona að Króksarar hafi ekki óvart verið bólusettir við körfuboltabakteríunni en kórónuveiran er í það minnsta skæð þessa dagana og líklegt að stór hluti stuðningsmanna hafi ekki átt heimangegnt og aðrir veigrað sér við að mæta í Síkið. Þeir sem mættu létu hins vegar vel í sér heyra, voru í dúndurstuði, enda sáu þeir sína menn í 40 mínútna ham sem endaði með sætum sigri, 94-88.

Það má kannski segja að lið Tindastóls hafi komið til leiks eins og sært dýr eftir erfiða byrjun á árinu, menn virtust staðráðnir í að selja sig rándýrt og fjórði leikhluti minnti á það besta úr Síkinu en þá steig allt liðið upp og Stjörnumenn fengu engan frið. Reyndar var þetta fjórði leikur liðanna í vetur og hafði lið Garðbæinga unnið alla þrjá þá fyrri og voru Tindastólsmenn búnir að fá sig fullsadda á þeim farsa.

Bess og Birgisson gáfu tóninn með tveimur þristum í upphafi leiks. Leikurinn var hraður og fjörugur því Stjörnumenn voru sömuleiðis í rallígírnum með Róbert Turner hinn þriðja sjóðheitan en Stólarnir réðu lítið við hann þegar hann valhoppaði inn í vítateiginn. Stólarnir leiddu 27-24 að loknum fyrsta leikhluta og heimamenn hófu leik af krafti í öðrum leikhluta og náðu átta stiga forystu, 34-26, þegar Axel setti niður síðari samningsbundna þristinn sinn. Garðbæingar svöruðu með tíu stigum í röð og náðu því forystunni áður en leikhlutinn var hálfnaður og var svo nánast jafnt á flestum tölum fram að hléi. Arnar þjálfari gestanna ætlaði sér að hafa yfirhöndina í hálfleik og í stöðunni 50-49 tók hann tvívegis leikhlé á lokasekúndunum til að plana pottþétta körfu en bæði hléin skiluðu engu og það var Pétur sem setti boltann í körfu gestanna um leið og leiktíminn rann út. Staðan 52-49 í hálfleik,

Þristur frá Arnari og tvistur frá Vrkic, 57-51, rúlluðu Stólunum í gang í síðari hálfleik og heimamenn héldu frumkvæðinu fyrst um sinn. Góðar körfur frá Gabrovsek í liði gestanna komu þeim hins vegar á bragðið og þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður höfðu Garðbæingar snúið leiknum sér í hag og leiddu með fimm stigum, 62-67. Bess svaraði með silkiþristi en í stöðunni 65-71 tók Baldur Þór leikhlé og fór yfir nokkra áherslupunkta með sínum mönnum. Helgi Rafn svaraði kallinu með laglegri íleggju og tveir þristar frá Arnari fylgdu fljótlega og allt jafnt, 73-73, fyrir lokafjórðunginn.

Túrbó-takkinn tekinn til kostanna á ný

Eins og stundum hér í den tid þá fundu Tindastólsmenn túrbótakkann í fjórða leikhluta en sá takki hefur virst týndur í töluverðan tíma. Nú átti bara að loka leið Stjörnumanna að fjandans körfunni, einn fyrir alla og allir fyrir einn! Í sókninni var það síðan Taiwo Badmus sem tók leikinn yfir en hann hafði verið lítið áberandi fram að því. Pétur byrjaði á að koma sínum mönnum yfir en næstu ellefu stig gerði Írinn okkar og lið Tindastóls komið vel yfir á góðum tíma, 86-75. Stjörnumenn reyndu að krafsa sig inn í leikinn en tóku vondar ákvarðanir í sókninni enda ákefðin mikil í vörn Stólanna. Þeir minnkuðu muninn í fimm stig, 93-88, þegar tvær og hálf mínúta var eftir en sóknarleikur þeirra var örvæntingarfullur í lokin og sigur Tindastóls því sætur og mikilvægur – enda nokkuð um liðið síðan Stólarnir unnu sterkan andstæðing.

Lið Tindastóls átti glimrandi leik í gær með aðeins átta tapaða bolta í fjörugum leik en mikilvægast var að liðið hitti vel utan þriggja stiga línunnar eða 47% (16/34). Augljóslega er liðið allt önnur Ella þegar Arnar er dottinn í stuð en hann var einmitt atkvæðamestur Stóla í gær með 22 stig og átta stoðsendingar. Taiwo skilaði 20 stigum, Bess 15 og Pétur gerði 14 stig og átti sjö stoðsendingar. Zoran Vrkic gerði níu stig, Axel 6 og Helgi Rafn og Siggi Þorsteins fjögur hvor en Siggi reif niður átta fráköst og lið Tindastóls spilaði best þegar hann var inni á vellinum.

Í liði Stjörnunnar voru þeir Robert Turner (28 stig), David Gabrovsek (21) og Shawn Hopkins (20) að draga vagninn en aðrir náðu sér ekki á strik. Stjarnan tapaði 13 boltum, 3ja stiga nýting þeirra var 31% en þeir tóku örlítið fleiri fráköst en lið Tindastóls (32/35).

Nú er bara að vona að Króksarar og stuðningsmenn Stólanna hristi af sér kórónuveiruna og fari að fjölmenn í Síkið því ef þessi leikur hefur ekki kveikt neistann að nýju þá erum við í vondum málum! Næsti leikur er hér heima strax á mánudaginn en þá komu vinir okkar úr Vesturbænum í Síkið. Áfram Tindastóll!

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir