Það snjóar á Króknum!
Það hefur verið stillt veðrið á Sauðárkróki síðasta sólarhringinn en í gærkvöldi fór að snjóa og hafa Króksarar varla haft undan að hreinsa snjóinn af bílum sínum það sem af er degi. Um er að ræða hálfgerðan klessusnjó sem festist bara þar sem hann fellur, en hiti hefur verið yfir frostmarki eða um frostmark. Útlit er fyrir að það snjói áfram um helgina en Veðurstofan gerir ráð fyrir að með kvöldinu snúist vindurinn og blási úr norðri um helgina og það jafnvel nokkuð duglega.
Í textaspá fyrir Strandir og Norðurland vestra segir: „Minnkandi suðlæg átt og dregur úr ofankomu, 3-8 m/s og él eftir hádegi. Gengur í norðaustan 13-20 m/s í nótt [aðfaranótt laugardags] með snjókomu. Frost 0 til 6 stig.“ Gert er ráð fyrir éljum eða snjókomu hér fyrir norðan á sunnudag en dregur úr vindi eftir því sem líður á daginn. Birtir síðan til á mánudag með tilheyrandi frosti.
Það hefur reyndar verið frekar snjólétt á Sauðárkróki í vetur og Króksarar að mestu sloppið við stórviðrin – enda austanáttin verið tiltölulega ráðrík síðasta misserið og hún nær sér heldur betur á strik austanvert í Skagafirðinum.
Ljósmyndari Feykis skaust einn rúnt um Krókinn í morgun og tók þá meðfylgjandi myndir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.