Það sem lífið getur verið skemmtilegt :: Leikfélag Hofsóss sýnir Saumastofuna
Miðaldra kona hlýtur að spyrja sig hvaða erindi leikrit sem er nánast jafngamalt henni sjálfri eigi við nútímafólk. Því var svarað á einni kvöldstund í Höfðaborg á Hofsósi þegar undirrituð skellti sér á sýninguna Saumastofuna. Hafði að vísu gægst aðeins á bakvið tjöldin á meðan á æfingarferlinu stóð, en þeim mun skemmtilegra að sjá hinn endanlega afrakstur sex vikna stífra æfinga. Skemmst er frá að segja að uppsetningin er vel heppnuð og á þessum rúmum tveimur tímum sem sýningin tekur (að hléinu meðtöldu) er allur tilfinningaskalinn undir.
Verkið, sem var frumraun Kjartans Ragnarssonar sem höfundar, var skrifað árið 1975. Það ár var sem kunnugt er, eftirminnilegt varðandi kvenréttindabaráttu. Innihald hennar á fullt erindi í nútímann þar sem málefni eins og launajafnrétti og þriðja vaktin eru ofarlega á baugi. Fjallar verkið um sex konur úr ólíkum áttum sem, ásamt þremur karlmönnum, starfa á Saumastofunni Saumnum. Ein úr hópnum á afmæli og slegið er upp veislu. Þá kemur ýmislegt upp á yfirborðið, sem starfsfólkið vissi ekki hvert um annað. Við fáum að vita af hverju Didda á svona bágt sem einstæð móðir, af hverju Gunna lenti í skítnum, af hverju Gústi hennar Möggu er ofdrykkjumaður, hvernig Lilla og Himmi enduðu sem par, af hverju Sigga gamla hefur ekki kitlað karlmann í áratugi og af hverju Ása vill eiga veraldlega hluti.
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá leikrit þar sem konur eru í burðarhlutverkum, en þau eru raunar vandfundin. Hlutverkin í sýningunni eru jafn ólík og persónurnar sem þar eru túlkaðar. Leikfélagið hefur undanfarin ár sýnt ýmsa farsa. Þó að Saumastofan sé með gamansömu ívafi og kitli vissulega hláturtaugarnar er undirtónninn alvarlegri en oft áður. Reynslusögur þessara ólíku kvenna sem koma við sögu eru túlkaðar af slíkri sannfæringu að það örlar á köflum á ryki í augum. Ég verð sérstaklega að hrósa konunum sem fara þarna með burðarhlutverkin. Að öðrum ólöstuðum fannst mér túlkun Sæunnar á Ásu skemmtileg og eins finnst mér gaman að sjá ungu konurnar, Bjarnveigu, Margréti, að ógleymdri hinni ungu og efnilegu Ingunni Marín, vaxa í sínum hlutverkum. Reynsluboltarnir Simmi, Kristján, Harpa, Sæunn, Veiga og Fríða skila sínu vel að vanda. Heilt yfir reynir talsvert á leikarana sem flestir leika einnig aukahlutverk, syngja einsöng og fara með oft á tíðum langan og nokkuð tyrfinn texta.
Það er ljóst að leikstjóranum, Maríu Sigurðardóttur, hefur tekist vel upp og hún náð góðum tengslum við leikhópinn. Sjálf segist hún í viðtali í leikskrá bókstaflega elska Hofsós og fólkið sem þar býr og kæmi mér ekki á óvart þó við ættum eftir að sjá meira til hennar þar. Leikmyndin er afar skemmtileg, þar sem leikfélaginu áskotnuðust góðir gripir til að setja upp saumastofu frá áttunda áratugnum. Þá gefa búningarnir góða innsýn í tísku þessa tímabils, sem og ýmsir leikmunir. Pípureykingar, kók í gleri og útvarpsleikfimi endurspegla tíðarandann, ásamt sviðsmyndinni og búningunum.
Í litlu samfélagi eins og Hofsósi er það grettistak að koma svo stórum viðburði sem leiksýning er á koppinn. Til þess þarf í þessu tilfelli níu leikara og nærri tvöfaldan þann fjölda bakvið tjöldin. Þá er dýrmætt að eiga fólk sem getur smíðað, sniðið, saumað, séð um tæknimál og fleira. Í viðtali við leikstjóra í leikskrá fær tæknimaðurinn Eiríkur sérstakt hrós og er það verðskuldað. Þær eru ófáar stundirnar og handtökin sem hann á í þessu verki. Sama má segja og um aðra sem að sýningunni koma. Þau eru mörg ósýnilegu handtökin.
Raunar er það nánast samfélagsleg skylda að flykkjast í leikhús og þakka þannig þessu magnaða fólki sitt óeigingjarna starf undanfarnar vikur. Ég lofa ykkur góðri kvöldstund sem skilur heilmikið eftir. Og gefur jafnvel tilefni til að velta fyrir sér og spjalla um ýmsa bresti í mannlegu eðli. Söngtextarnir halda líka áfram að óma eftir að sýningu líkur og hafa sinn boðskap líkt og hinn talaði texti.
Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.