Tap í bragðlitlum leik gegn Þrótti
Stólastúlkum hefur lengi gengið brösuglega að ná í góð úrslit gegn liði Þróttar í Reykjavík og það varð engin breyting á því í gærdag þegar liðin mættust á Eimskipsvellinum í 10. umferð Pepsi Max deildarinnar. Eitt mark heimastúlkna í sitt hvorum hálfleiknum dugði til að leggja lið gestanna sem komu boltanum ekki í mark andstæðinganna að þessu sinni. Lokatölur því 2-0 fyrir Þrótt.
Leikið var við ágætar aðstæður fyrir sunnan og eins og oftast voru það andstæðingar Tindastóls sem héldu boltanum betur og stjórnuðu ferðinni. Bæði lið fengu engu að síður tækifæri til að skora. Amber varði vel frá Shea Moyer snemma leiks en eftir um 25 mínútur komst Aldís í gott færi eftir sendingu frá Murr en Íris Dögg varði vel í marki Þróttar. Fimm mínútum síðar komst Katherina Cousins framhjá varnarmönnum Tindastóls sem enduðu á að brjóta á henni og víti dæmt. Hún skoraði örugglega úr vítinu og heimastúlkur komnar með forystuna. Murielle átti nokkra góða spretti eftir þetta en hafði ekki heppnina með sér upp við markið og skömmu fyrir hlé varð hún fyrir því að fara úr axlarlið – ekki í fyrsta skipti og sennilega ekki það síðasta. Hún kom aftur inn á eftir að hafa fengið aðhlynningu og öxlin sett á sinn stað.
Tindastólsstúlkur þurftu að halda vel á sínum spilum í síðari hálfleik til að ná einhverju út úr leiknum en lið Þróttar gerði brekkuna fjallbratta fyrir gestina með því að skora strax í upphafi. Linda Líf Bouma sýndi þá laglega takta á hægri kantinum og sendi boltann fyrir á Ólöfu Kristinsdóttur sem kláraði færið með tilþrifum og Amber átti engan séns í marki Tindastóls. Í raun gerðist fátt markvert eftir þetta og lið Tindastóls náði ekki upp sömu baráttu og krafti og þær sýndu gegn Stjörnustúlkum í leiknum á undan. Besta færi Tindastóls átti Murr þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en þá náði hún góðu skoti utan teigs en boltinn small í þverslánni.
Þessi úrslit þýða að Stólastúlkur sitja sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar og þurfa að fara að krækja í fleiri sigra til að rétta úr kútnum. Þróttur komst hins vegar upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum og hafa verið að spila góðan fótbolta.
Óskar Smári Haraldsson í þjálfarateymi Tindastóls sagði niðurstöðuna í raun vera svekkjandi tap. „[Það voru] augnablik í leiknum þar sem við erum ekki með réttan fókus og það er nóg til þess að Þróttur kemst á lagið og skorar þau mörk sem þær skora. Annars áttu stelpurnar nokkra mjög flotta spilkafla og voru að komast í álitlegar stöður. Dveljum ekki of lengi á þessum leik, förum yfir hann og lögum það sem þarf að laga og mætum svo klárar gegn Fylki.“
Leikurinn gegn Fylki verður spilaður á Króknum þriðjudaginn 20. júlí og hefst kl. 18:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.