Tap á heimavelli í toppslagnum

Tindastóll tók á móti KB í toppslag C-riðils í 3. deildinni í dag. Stólarnir voru miklu betri en höfðu það nú samt af að tapa 0-2 í frekar undarlegum leik sem minnti pínulítið á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni á milli Bayern Munchen og Inter Milan frá í vor, þar sem annað liðið hélt boltanum en gekk illa að skapa sér færi en hitt liðið varðist en sótti nokkrum sinnum og skoraði mörkin í leiknum. Endar þar reyndar samlíkingin milli þessara tveggja leikja.

Stólarnir sóttu undan nokkuð sterkum norðanvindi í fyrri hálfleik og voru nánast með boltann allan hálfleikinn. Leikmenn KB fengu þó tvö dauðafæri undir lokin en klúðruðu þeim. Stólarnir voru með þá Kristinn Aron og Dabba Rún frammi og hefðu þeir örugglega staðið sig betur með hrífu á vellinum en boltann. Strekkingurinn gerði þeim svosem ekki auðvelt fyrir og þá voru sendingar fyrir markið frá félögum þeirra grátlega slakar í flestum tilfellum. Stólarnir voru alltof óþolinmóðir í sóknum sínum og drituðu boltum við fyrsta tækifæri inná markteig í hendurnar á öruggum markmanni KB eða aftur fyrir endalínu. Kjöraðstæður voru fyrir Stólana að dúndra á markið undan vindi þar sem vörn KB lá aftarlega en skotin urðu fá og öll léleg. Þrátt fyrir þetta voru Stólarnir miklu betri og spiluðu oft laglega úti á vellinum og unnu flestar tæklingar. Staðan 0-0 í hálfleik.

Það tók gestina ekki langan tíma að skora í síðari hálfleik. Brotið var á Árna Einari út við hliðarlínu en dómarinn leifði leiknum að ganga og vörn Tindastóls svaf á verðinum, leikmenn KB voru skyndilega fleiri en varnarmenn Stólanna í teignum og skoruðu með frekar slöku skoti. Tindastólsmenn spýttu í lófana og hertu á sókninni en þeim gekk sem fyrr illa að skapa sér færi, sendingar margar hverjar alltof erfiðar og þolinmæðin lítil. Ekki leið á löngu þar til gestirnir bættu við marki; Árni Einar og Alli hikuðu báðir á miðjum vallarhelmingi Stólanna og leikmaður KB gekk á lagið, tók boltann og lék með hann inná vítateig þar sem hann skoraði með góðu skoti. Varnarleikur Tindastóls var ekki til eftirbreytni í þessum leik því í þau fáu skipti sem leikmenn KB komust upp að vítateig Tindastóls var fjandinn laus.

Stólarnir héldu áfram að sækja. Framherjaparið hvarf af velli en enginn framherji kom inn í staðinn, Konni var færður úr bakvarðarstöðunni í framlínuna en sem fyrr var fátt um fína drætti. Marri kom inn í liðið þegar korter var eftir og það var ekki fyrr en hann fór að sækja boltann á miðjuna og Árni Einar var kominn fram að einhver hætta skapaðist. Þá var nokkuð dregið af leikmönnum KB (sem margir hverjir voru nú ekki verulega íþróttamannslega vaxnir) en markvörður liðsins var í miklu stuði og varði hvað eftir annað með miklum tilþrifum á lokamínútunum. Lokatölur 0-2.

Úrslit leiksins verða nú varla talin gefa rétta mynd af leiknum en þrátt fyrir að hafa boltann mestan part leiksins gekk Stólunum afleitlega að skapa sér færi en lið KB sótti sjaldan en fékk 4-5 dauðafæri og náði að nýta tvö þeirra. Lið Tindastóls og KB eru nú efst og jöfn í C-riðli með 18 stig þegar 8 umferðir af 12 hafa verið leiknar. Það er augljóst að Tindastólsmenn verða að gera betur en þetta ef þeir ætla að gera stuttan stans í neðstu deild. Þetta var ansi dapurt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir