Tannheilsa almennt góð með alvarlegum frávikum þó

Skagfirðingar og nærsveitungar eru duglegir að mæta með börn sín til tannlæknis enda gjald tannlækna hér mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu

Að sögn tannlæknanna Ingimunda Guðjónssonar og Eyjólfs Sigurðssonar á Sauðárkróki er tannheilsa barna í Skagafirði almennt góð með alvarlegum frávikum þó.

Ingimundur segir að kerfi sem tannlæknar, heilsugæsla og skólar hafi komið sér upp hér innan héraðs skipti miklu máli þegar litið sé til tannheilsu barna. -Þegar börnin byrja í skóla þurfa þau að velja sér tannlækni sem síðan er tilkynnt um barnið og hefur í framhaldi samband við foreldrið og býður eftirlit. Ég held að það sé ekki síst þessu kerfi að þakka við við erum að sjá betri heimtur en víða annars staðar á landinu.

Að sögn Eyjólfs spilar lægra verð tannlækna á Sauðárkróki einni stórt hlutverk en gjaldskrá þeirra er mun lægri en gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu. -Ég er að fá í stólinn til mín fólk sem keyrir langar leiðir til þess að komast hingað til tannlæknis, segir Eyjólfur. -Við erum sanngjarnir í verði og það skilar sér til baka á þann hátt að fólk er duglegra að fara til tannlæknis með börnin sín. Við erum í það minnsta ekki að sjá það hér að það séu einhver 20% sem skila sér ekki í hefðbundið eftirlit.

Hver skýringin á lægra gjaldi hér er vita þeir félagar ekki. Að líkindum er þar þó um að ræða ódýrari húsakost auk þess sem að á sumum stofum á höfuðborgarsvæðinu sé mikið lagt í umgjörð stofunnar sem skili sér aftur í verðlagninguna.

 

Aðspurður segja þeir að tannheilsa barna í Skagafirði sé almennt mjög góð en segja þó báðir að aukning hafi orðið á alvarlegum skemmdum hjá ungum börnum. -Það er því miður staðreynd já, segir Ingimundur. -Ég lennti í því um daginn að þurfa að draga fullorðinstönn úr ungu barni sökum skemmdar. Það hef ég aldrei þurft að gera áður, bætir Eyjólfur við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir