Tæpar 23 milljónir úr Framkvæmdasjóði aldraðra á Skagaströnd
Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 650 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við tillögur stjórnar sjóðsins. Á heimasíðu Stjórnarráðsins kemur fram að hersla hafi verið lögð á verkefni sem bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum, úrbætur sem tengjast aðgengismálum og öryggismálum og ýmsum stærri viðhaldsverkefnum.
Alls bárust umsóknir um framlög til 60 verkefna og hlutu 54 þeirra styrk. Hæstu framlögin renna til hjúkrunarheimila Sjómannadagsráðs, alls um 250 milljónir króna til 14 mismunandi verkefna. Þar af vega þyngst úrbætur á Hraunvangi í Hafnarfirði þar sem m.a. verða gerðar endurbætur á 50 baðherbergjum í einkarýmum íbúa.
Af öðrum verkefnum sem hljóta styrk eru margvísleg endurbóta- og viðhaldsverkefni á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið. Sem dæmi má nefna endurnýjun á lyftubúnaði, endurbætur á netkerfum, uppsetning á nýjum brunakerfum, endurnýjun raflagna og endurbætur á útiaðstöðu íbúa. Sveitarfélagið Ölfus fær tæpar 29 milljónir króna í styrk vegna framkvæmda við nýja dagdvöl fyrir 16 einstaklinga.
Hjúkrunarheimilið Sæborg á Skagaströnd er hið eina sem fær úthlutað á Norðurlandi vestra en þangað fara 22.743.624 krónur í viðhald og endurbætur á einstaklings‐ og sameiginlegum rýmum. Á Sæborg búa að jafnaði um níu íbúar og vinnur heimilið eftir Lev og bo hugmyndafræðinni, eftir því sem fram kemur á heimasíðu Skagastrandar.
Úthlutanir Framkvæmdasjóðs aldraðra má sjá HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.