„Sýndum veikleika þar sem allir eru sammála um að við ætlum að bæta“ - Stólar úr leik í bikarnum
Stjarnan sló Tindastól út í Bikarkeppni VÍS í körfubolta í gærkvöldi sem fer fyrir vikið í úrlitarimmu gegn Njarðvík, sem fyrr um daginn sló ÍR út, nk. laugardag. Leikur gærkvöldsins var hörkuspennandi og réðust úrslit endanlega rétt í lokin, 86:81.
Hér tókust á tvö feiknagóð lið og einkenndist leikurinn af miklum hraða, góðri varnarvinnu og ákveðni leikmanna. Liðin skiptust á forystu í fyrsta leikhluta sem endaði með fjögurra stiga forystu Stjörnunnar 24 – 20. Þá tók við góður kafli Stóla sem náði að snúa leiknum sér í vil í þeim næsta og vinna hann með 28 stigum gegn 15 og leiddu því í hálfleik með 48 stig gegn 39. Þá gerðu Stjörnumenn harða hríð að norðanmönnum og snarsnéru leikum og unnu þriðjaleikhlutann með sömu tölum 28 – 15 og því sami fjögurra stiga munur og eftir fyrsta leikhluta eða 67 – 63. Þá upphófst spennandi lokakafli þar sem Stólar voru lengstum að elta, tveimur til fimm stigum eftir, en náðu þó að jafna leikinn þegar um þrjár mínútur voru liðnar 73:73. Þá tóku gestgjafar á sig rögg og tóku forystu sem þeir létu ekki af hendi og sigldu sætum sigri í höfn 86:81.
Frákastaeinvígið var Stjörnumanna og má fullyrða að það hafi skapað sigur þeirra enda mun öflugri en Stólar, 60.7% gegn 39.3%. En yfir heildina lítur Tindastólsliðið vel út miðað við fyrstu leiki tímabilsins og ljóst að það mun blanda sér í toppbaráttuna í vetur.
„Mér fannst gaman að sjá hversu góðir varnarlega við vorum á köflum sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stóla, er Feykir hafði samband við hann í morgun. „Við getum sett upp hörkuvarnarleik og allir leikmenn liðsins vilja spila vörn. Stjarnan gerir vel að fara stöðugt með alla sína menn mjög sterkt í sóknarfráköst. Við sýndum veikleika þar sem allir eru sammála um að við ætlum að bæta.“
Baldur segir það hafa haft áhrif á leikinn að Thomas tognaði aftan í læri í byrjun seinni hálfleiks og Siggi þurfti að víkja af velli með fimm villur. Hann viðurkennir að hann hefði viljað vinna leikinn á sterkum heimavelli Stjörnunnar en segir teymið allt læra af þessum leik og mun bæta sig fyrir tímabilið, sem hann er mjög spenntur fyrir.
„Við erum með flott lið, með leikmenn sem vilja hreyfa boltann og leggja sig fram í vörn. Hlakka einnig til þess að spila með áhorfendur og stemmningu á hverjum einasta leik,“ segir hann í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.