Sýndaráætlun eða sóknaráætlun

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur um langt skeið haft í undirbúningi að hleypa af stokkunum nýrri áætlun undir yfirskriftinni Sóknaráætlun landshluta 20/20. Sú hugmyndafræði sem unnið er með er að mínu mati mjög jákvæð, en hún miðar að því að auka svæðisbundna sjálfstjórn í mikilvægum málum og kalla eftir sameiginlegri framtíðarsýn.

Markmiðið með áætluninni er að efla atvinnulíf og lífsgæði til framtíðar með því að samþætta hinar ýmsustu áætlanir hins opinbera þ.e. í samgöngu-, fjarskipta- og ferðamálum auk áætlana um eflingu byggða og sveitarstjórnarstigsins almennt.

Lúðrablástur
Miðað við háleit markmið, lúðrablástur og mikið umfang mætti ætla að miklir fjármunir væru settir í Sóknaráætlun landshluta 20/20, en svo er alls ekki. Á Norðurlandi vestra er einungis veitt um 50 milljónum króna til áætlunarinnar, sem er ekki langt frá þeirri upphæð sem stjórnvöld hafa skorið niður á svæðinu í fjárframlögum til safna og menningarsamninga á svæðinu. Til þess að skipta þessu litla fé hafa stjórnvöld í hyggju að kalla saman á fjórða tug manna víðs vegar að úr landshlutanum til samræmingar og stefnumörkunar! Umstangið og umbúnaðurinn í kringum sáralítið fé gefur til kynna að sóknaráætlunin sé í raun sýndaráætlun sem lítil sem engin meining er með.

Í ljósi annarra stjórnvaldsákvarðana ríkisins, er Sóknaráætlun landshluta 20/20 orðin að lélegum leikþætti. Sem dæmi má nefna að bara í Sveitarfélaginu Skagafirði hefur störfum á vegum ríkisins markvisst verið fækkað gríðarlega á valdatíma ríkisstjórnar VG og Samfylkingar eða um 15%.

Samkvæmt svari við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur þingmanns til fjármálaráðherra um þróun fjölda starfa á vegum hins opinbera á landinu öllu, má ráða að fækkunin á störfum ríkisins í Skagafirði sé um 50% meiri en að jafnaði hefur orðið almennt hjá ríkinu frá hruni. Sú er raunin þrátt fyrir að ráðamenn á borð við Guðbjart Hannesson hafi lofað að þeim svæðum landsins sem fóru varhluta af þenslunni í aðdraganda hrunsins yrði sérstaklega hlíft við niðurskurði. Ef fyrrgreint svar fjármálaráðherra er skoðað nánar, er augljóst að ríkisstjórnin hefur haft endaskipti á hlutunum og einkum beitt niðurskurðarhnífnum af hörku í þeim landshlutum, sem höllum fæti standa.

Í Skagafirði blasir enn fremur við að á síðustu misserum hefur áætlunarflugi verið hætt fyrirvaralítið og nánast öllum opinberum framkvæmdum verið slegið á frest.

Handan við hornið
Þegar ráðherrar, sem málin varðar, eru krafðir svara um hvert stefnt sé er viðkvæðið oftar en ekki, eins og hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, að eitthvað jákvætt sé handan við hornið. Sjaldnast er um raunverulegar efndir að ræða, heldur eru mál og svör dregin á langinn. Núna blasir við sú alvarlega staða í Skagafirði að óvissa er uppi um framtíðarstefnu stjórnvalda um margvíslega opinbera þjónustu, s.s. um sýslumannsembættið, útibú Vegagerðarinnar, Heilbrigðisstofnunina og því miður fleira.

Ef markmiðið með Sóknaráætlun landshluta 20/20 á að ná fram að ganga þá hljóta stjórnvöld að þurfa að skipta algerlega um takt. Sem dæmi má nefna að 85% fjármuna til menningarmála er varið á höfuðborgarsvæðinu. Hægt væri að leggja áherslu á að flytja þau verkefni og fleiri sem ekki er sinnt af ríkinu jafnt til allra landshluta. Minna máli skiptir flutningur á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, sem er almennt sinnt ágætlega um land allt.

Aukinn fjölbreytileiki
Það að flytja ábyrgð og rekstur menningarmála í nokkrum skrefum til sveitarfélaganna myndi auka fjölbreytileika og skjóta styrkari stoðum undir menningarstarf alls staðar á landinu. Enginn þarf að óttast að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ráði ekki auðveldlega við að fjármagna blómlegt menningarstarf sem nú fer fram í höfuðborginni, ef sveitarfélögin í landinu fengju aukna hlutdeild í skatttekjum.

Öll rök hníga í þá átt að sveitarfélögin taki að sér í auknum mæli stjórn og ábyrgð nærþjónustu á sem flestum sviðum. Skipulag og þjónusta verður þá í höndum þeirra sem eru öllum hnútum kunnugir, sem ætti að leiða til betri meðferðar opinberra fjármuna og sveigjanlegri þjónustu.

Sóknaráætlun 20/20 felur í sér jákvæða aðferðarfræði, en stjórnvöld verða að þora stíga skrefið til fulls því annars er hætta á að áætlunin breytist í sýndaráætlunina 20/20.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir