„Synda, synda, Tindastóll!“

Sundþjálfarar Tindastóls, Anna Szafraniec, Soffía Valsdóttir og Þóra Lisebet Gestsdóttir. Aðsend mynd.
Sundþjálfarar Tindastóls, Anna Szafraniec, Soffía Valsdóttir og Þóra Lisebet Gestsdóttir. Aðsend mynd.

Sunddeild Tindastóls vinnur nú í því að efla starf deildarinnar enn frekar, bæði með aukinni fræðslu fyrir þjálfarana sem og að bjóða sem flestum að koma og prófa að mæta á æfingar.

„Nú þegar hefur iðkendum fjölgað töluvert síðustu misseri, þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna síendurtekinna lokana á æfingasvæði okkar sem er Sundlaug Sauðárkróks. Fjölgunin hefur verið hvað mest í yngstu hópunum sem okkur þykir frábært, og halda sömu iðkendur áfram að mæta glaðir á æfingar hjá okkur misseri eftir misseri, sem segir okkur að við hljótum að vera að gera eitthvað rétt,“ segja þjálfararnir þær Þóra Lisebet Gestsdóttir, Anna Szafraniec og Soffía Valsdóttir, sem jafnframt er formaður deildarinnar, og bæta við: „Við sjáum að Skagfirðingar eiga margt efnilegt sundfólk sem á framtíðina fyrir sér í sundinu.“

Þjálfarar deildarinnar hafa verið að auka við sig í menntun og hafa myndað gott tengslanet við þjálfara annarra sunddeilda víða um landið, ásamt því að kynna sér starf stærstu sundfélaga landsins. „Nú síðastliðna helgi 17. og 18. september tókum við þátt í þjálfararáðstefnu á vegum Sundsambands Íslands, sem haldin var á Hótel Hamar í Borgarnesi, og hittum þar öflugasta fólkið í sundheiminum á Íslandi sem og erlenda þjálfara sem þjálfa ólympíufara og heimsmeistara, fólk með marga titla í farteskinu. Komum við heim í fjörðinn góða af ráðstefnunni fílefldar og fullar eldmóð.“

Nú er vetrarstarfið komið í gang aftur hjá sunddeildinni og segja þær stöllur hlakka til að taka á móti sem flestum sundköppum sem hafa áhuga á að styrkja það flotta sundlið sem fyrir er með nærveru sinni. „Koma svo! Synda, synda, Tindastóll!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir