SVONA ERU JÓLIN….
Sigurlaug Vordís og Sigfús Benediktsson á Sauðárkróki voru matgæðingar vikunnar í Feyki fyrir réttum tveimur árum síðan. Þau gáfu lesendum Feykis innsýn í dásamlegar jólahefðir með uppskriftum af hreindýrapaté, sem er „agalega góður foréttur,“ „öndinni góðu“ í aðalrétt og myntuís í eftirrétt.
Forréttur
Hreindýrapaté
100 g hnetur, pistasíuhnetur
50 g rifsberjahlaup
1 dl einiber (allt í lagi að nota önnur ber)
100 ml púrtvín
1 msk stjörnuanís
1 msk estragon, lauf
875 g svínafita
1 tsk salt, borðsalt
1 tsk pipar, svartur
1 stk laukur, hrár (má nota laukduft fyrir þá sem fíla ekki lauk)
875 g hreindýrakjöt, hrátt
750 g lifur
Aðferð:
- Fyrst er að hakka lifrina, hreindýrakjötið, fituna og laukinn. Á meðan hendir maður púrtvíninu og rifsberjahlaupinu í pott og lætur sjóða pínu. Þá saxar maður pistasíurnar og blandar öllu saman og kryddar með salti, pipar, stjörnuanís og estragon laufinu.
- Þá er bara að setja alla blönduna í form og baka við 95°C þar til kjarnhiti nær 71°C, látið kólna og skorið í fallegar sneiðar. Mjög gott að bera fram með ristuðu brauði og rifsberjahlaupi eða sultu. Uppskriftin er fyrir u.þ.b. fjóra fullorðna sem aðalréttur en svona 8 sem forréttur.
- Yngri kynslóðin pantar samt frekar djúpsteiktan kjúkling í sérstakri rasp-krydd blöndu (ala amma Góa) í forrétt sem hefur verið uppáhalds jólaréttur allra í „Sillu“ fjölskyldu og hefur verið á boðstólum í „annan í jólum boðunum" frá því að hún var lítil.
Aðalréttur
Öndin góða
„Við erum vanalega með hið klassíska svínakjöt, hangikjöt og léttreyktan hrygg á aðfangadag- elskum það. En Silla er líka alin upp við hinn yndislega og hátíðlega rét, andarsteik a la Níels og Þórdís, vorum einmitt að gæða okkur á því núna um helgina þar sem við héldum litlu jólin og ætlum pottþétt að hafa á boðstólum á annan í jólum boðinu."
- Kaupi franskar andarbringur (tvær í pakka) til í Bónus og Nettó. Mjög mikilvægt að þær séu franskar. Tvær bringur myndu henta fyrir fjóra.
- Tekið út deginum áður. Morguninn eftir þá sker maður tígla í haminn og setur í eldfast mót ásamt 1 dl af púrtvíni og látið standa upp á bekk.
- Síðan seinnipartinn þá er steikt upp úr íslensku smjöri, brúnað báðu megin, og kryddað með svörtum pipar og salti.
- Sett inn í ofn við 150 gráður og fenginn 65 gráðu hiti í þær.
Meðlætið er:
- Sæt kartöflu stappa; þá er bara að sjóða sæta kartöflu og stappa með smjöri, salti og pipar.
- Döðlusalat; 1 dós grísk jógúrt frá Örnu, 1 grænt epli, nokkrar döðlur og smá hunang.
- Sósan; þá er soðið saman laukur, smá púrtvín, vatn, andarkraftur, gulrót, steinselja (má nota það grænmeti sem til er í ísskápnum hverju sinni). Soðið í 2-3 tíma og smakkað af og til. Síðan sigtar maður grænmetið frá og soðið notað. Smjörsteiktum villisveppum síðan bætt út í sósuna.
Eftirrétur
Myntu ís
5 eggjarauður
1 msk sykur
5 dl rjómi
1 kassi Fazermint myntufyllt súkkulaði (150 g). Hægt að nota alls kyns piparmyntu súkkulaði.
1 poki Marianne súkkulaðifylltur myntubrjóstsykur (120 g). Hægt að nota klassísku piparmyntu molana - þá eru þeir ekki súkkulaði fylltir - allt í besta.
Hægt að blanda berjum við blönduna ef maður vill smá ferskleika á móti myntunni (svona 300-500 g, fersk eða þíð). Stappað.
Aðferð:
Rjóminn er þeyttur og lagður til hliðar, eggjarauður og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Þá er piparmyntu brjóstsykurinn settur í poka og laminn í smátt með kjöthamri (eða settur í matvinnsluvél, á bara ekki slíkan eðal grip). Þá er að saxa niður súkkulaðið og þeyta rjómann. Rjómanum, súkkulaðinu og molunum er síðan blandað við þeyttu eggjarauðurnar, frekar varlega. Sett í smelluform og inn í frysti yfir nótt.
Þá er bara að taka fram ísskálarnar, brjóta niður smá marengs og kókosbollur í botninn, skella tveimur góðum ískúlum ofan á, ferskum ávöxtum og klassísku mars-dumble heitu sósunni yfir og borða án samviskubits, þar sem það eru nú einu sinni jólin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.