Sveitarstjórnakosningarnar 29. maí 2010
Nú styttist í að gengið verði til sveitarstjórnakosninganna 29. maí og listar komnir fram. VG í Skagafirði hefur lagt fram framboðslista sinn, sem skipaður er fólki víðs vegar að úr héraðinu með margháttaða starfsreynslu. Tvö efstu sætin skipa, eins og fyrir fjórum árum, þeir Bjarni Jónsson, fiskifræðingur, og Gísli Árnason, kennari, báðir reyndir menn í málefnum sveitarfélagsins og á ýmsum öðrum vettvangi.
Skagfirðingar þekkja störf þeirra. Þriðja sætið skipar ungur hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnuninni, Arnrún Halla Arnórsdóttir, sem er nýtt nafn á lista VG í Skagafirði. Nefna má, að áttunda og níunda sæti listans skipa tveir ungir og upprennandi bændur hér í héraði, sem ekki hafa komið að framboðsmálum áður. Framboð VG í Skagafirði leggur þunga áherslu á að “vera málsvari allra íbúa héraðsins”, án tillits til þess hvar þeir eru búsettir, hvort þeir búa úti á Skaga eða frammi í Austurdal. Allir, hvort sem búa í þéttbýli eða dreifbýli, eru jafn mikilvægir hlekkir í þeirri viðleitni að skapa gott og fagurt mannlíf í héraðinu. VG hefur á vissan hátt tekist að skapa sér ákveðna sérstöðu í sveitarstjórn Skagafjarðar, unnið þar að mörgum framfaramálum héraðsins af hagsýni og fyrirhyggju, auk þess sem að standa traustan vörð um hið stórbrotna náttúrufar Skagafjarðar. Sem fyrr viljum við efla hér sem fjölbreyttast atvinnulíf og menningu, styrkja grunnstoðirnar, landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu og efla nýjar atvinnugreinar meðal annars á sviði þekkingariðnaðar og hátækni, að ógleymdri uppbyggingu skólasetra héraðsins og eflingu menningarlífs og listsköpunar. Hin glæsilega atvinnu- mannlífs- og menningarsýning, lífsins gæði og gleði, sem sett var upp á Sauðárkróki dagana 24. – 25. apríl, þar sem rúmlega hundrað fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar kynntu vörur sínar og þjónustu, sýndi svo ekki varð um villst, hve ótrúlega margt jákvætt er að gerast í atvinnu- og menningarlífi Skagafjarðar. Hér er sannarlega enginn krepputónn og bjartsýni ríkjandi, þótt vissulega snerti hrunið í þjóðfélaginu Skagfirðinga eins og aðra landsmenn. Svona sýning hlýtur að auka öllum íbúum Skagafjarðar bjartsýni og þor. En víst eru þó blikur á lofti hér sem annars staðar. Um tíu prósent niðurskurður er boðaður á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, mun meiri en við aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu, auk þess sem fæðingardeild sjúkrahússins hefur verið lögð niður. Öllum má vera ljóst, að góð heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum hvers samfélags, og því er hér um alvarlegt mál að ræða. Kannski er það dálítið kaldhæðnislegt, að það skuli vera hlutskipti heilbrigðisráðherra Vinstri – grænna að standa fyrir slíkum áformum, en sennilega mundi það litlu breyta, hver sæti í þeim stól nú um stundir. VG í Skagafirði hafa mótmælt þessum áformum kröftuglega og auk þess lagt til, að endurreistar verði sjúkrahússtjórnir á hverjum stað, er veiti stjórnvöldum aðhald og verði ráðgefandi í stefnumörkun og forgangsröðun verkefna hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun. Sjúkrahússtjórnir voru aflagðar fyrir nokkrum árum. Framganga fráfarandi sveitarstjórnarmeirihluta í þessu máli virðist líka hafa verið fremur ómarkvís. Vissulega er í mörg horn að líta hjá sveitastjórn, ekki síst nú í hruninu, en þá skiptir máli, að unnið sé af hagsýni og fyrirhyggju og með hag sem flestra íbúa að leiðarljósi. VG í Skagafirði munu hér eftir sem hingað til gæta aðhalds og ráðdeildar í sambandi við allar framkvæmdir, svo og við stjórnun sveitarfélagsins, þar sem horft verður í hverja krónu til sparnaðar án þess að skerða þjónustu, enda skuldir sveitarfélagsins komnar á mjög hættulegt stig. VG munu forðast allan loforðavaðal og yfirboð, en standa við það, sem ákveðið er. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélagsins verður að tryggja. Fráfarandi meirihluti Framsóknar og Samfylkingar virðist hafa spilað nokkuð djarft í fjármálum á liðnu kjörtímabili, meðal annars með byggingu hins nýja leikskóla á Sauðárkróki, gríðarlega dýrrar byggingar, sem ýmsir telja að hefði mátt byggja ódýrari með sama notagildi. Ýmislegt hefur vissulega verið vel gert á kjörtímabilinu. Þar vil ég ekki síst nefna byggingu Flokku, ásamt átaki í flokkun sorps og vinnslu, sem draga mun stórlega úr magni sorps, sem þarf að fara til urðunar. Ómar Kjartansson á mikið hrós skilið fyrir sitt framtak. Opnun Húss frítímans og menningarhússins Miðgarðs er farið að sanna gildi sitt. Það er gott að búa í Skagafirði og hér er góð þjónusta á flestum sviðum. Það get ég sagt, af því ég þekki víðar til. En góða þjónustu og gott mannlíf má alltaf gera betra, að því vilja Vinstri – græn í Skagafirði vinna með ykkar stuðningi, fólksins í héraðinu. Til þess þurfa VG að komast í oddaaðstöðu í næstu sveitarstjórn. Hugleiðið nú, ágætu Skagfirðingar, hvað VG geta fyrir ykkur gert. Þið þekkið gömlu flokkana og störf þeirra, berið þau saman við stefnu og störf VG. Einu geta allir treyst, að hvar sem Vinstri – græn starfa, þar eru hreinar línur. Gleðilegt sumar.
Ólafur Þ. Hallgrímsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.