Sveitarfélögin vel á veg komin í gerð stafrænna húsnæðisáætlana
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kynnti á haustmánuðum breytt fyrirkomulag húsnæðisáætlana þar sem þær verða alfarið á samræmdu stafrænu formi frá og með árinu 2022. Þessi breyting er í samræmi við niðurstöðu samstarfsþings HMS og sveitarfélaganna sem haldið var í janúar sl.
Á heimasíðu HMS kemur fram að sveitarfélögin vinni þessa dagana í gerð stafrænna húsnæðisáætlana og er sú vinna vel á veg komin í allflestum sveitarfélögum. Fram til þessa hefur HMS fundað með 39 sveitarfélögum og leiðbeint með vinnslu í nýju áætlanakerfi stafrænna húsnæðisáætlana en borist hafa upplýsingar um tengiliði sem munu vinna í áætlanakerfinu fyrir 62 sveitarfélög. Niðurstöður húsnæðisáætlana verða kynntar á húsnæðisþingi HMS sem haldið verður í lok janúar nk.
Stjórnvöld taka fast utan um húsnæðismálin
Í frétt HMS segir að stafrænar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði mikilvægt stjórntæki stjórnvalda í stefnumótun og opinberum stuðningi. „Erum að stíga stórt skref í áttina að auka gæði upplýsinga um stöðuna á húsnæðismarkaði,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS. „Við horfum til þeirra tækifæra sem eru til aukins samstarfs og samfélagslegs árangurs sem næst með því að auka yfirsýn á húsnæðismarkaði.“
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð rík áhersla á húsnæðismál þar sem m.a. er komið inn á að tryggt verði að fyrir liggi greinargóðar rauntímaupplýsingar og betri yfirsýn um húsnæðismarkað, framboð íbúða, framboð á lóðum og stöðu í skipulags- og byggingamálum á öllu landinu. Ásamt þessu kemur fram að stjórnvöld muni innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli og styðja við stafræna þróun sveitarstjórnarstigsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.