Sveitarfélagið Skagaströnd rekið með hagnaði árið 2022

Séð yfir smábárahöfnina á Skagaströnd. MYND: ÓAB
Séð yfir smábárahöfnina á Skagaströnd. MYND: ÓAB

Húnahornið flytur frétt af því að sveitarfélagið Skagaströnd hafi verið rekið með 629 þúsund króna hagnaði árið 2022. Það verður að teljast vel viðunandi árangur í ljósi þess að áætlanir, með viðaukum, gerðu ráð fyrir 73 milljón króna tapi. Síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins 2022 fór fram á sveitarstjórnarfundi sl. fimmtudag og var hann samþykktur samhljóða. Samkvæmt honum voru rekstrartekjur 792,1 milljón króna og rekstrargjöld ásamt afskriftum og fjármagnsgjöldum 791,5 milljónir króna.

„Jákvæð frávik frá áætlun eru í skatttekjum vegna hærri útsvarstekna og framlaga frá jöfnunarsjóði félagsþjónustu vegna endurútreiknings á framlögum vegna málefna fatlaðra, umferðar og samgöngumála vegna lægri kostnaðar við snjómokstur, breytingu á lífeyrisskuldbindingum og hjá hafnarsjóði vegna tekna af afla- og þjónustugjöldum,“ segir m.a. í fundargerð sveitarstjórnar um ársreikninginn. „Helstu neikvæðu frávikin eru í atvinnumálum vegna gjaldfærslu í tengslum við sjóbaðaverkefni, í sameiginlegum kostnaði vegna launa og aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og viðhaldi eignasjóðs.“

Handbært fé sveitarfélagsins lækkaði um 156,9 milljónir milli áranna 2021 og 2022. Sveitarfélagið tók engin ný lán á árinu en nýtti rekstrarfé og laust fé í fjárfestingar. Þá lækkuðu skuldir við lánastofnanir um 16,1 milljón milli ára. Skuldahlutfallið, sem reiknað er í samræmi við reglur um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga var -1% í árslok 2022.

Heimild: Húnahornið.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir