Sveitarfélagið Skagafjörður tekur þátt í atvinnuátaksverkefni fyrir námsmenn 18 ára og eldri

 
 
 

Vinnumálastofnun hefur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga unnið að sérstöku atvinnuátaksverkefni fyrir námsmenn án bótaréttar í sumar. Felst í átakinu að Atvinnuleysistryggingasjóður styrkir sveitarfélögin um ákveðið mótframlag í launakostnaði við verkefni sem eru viðbót við starfsmannafjölda eða verkefni umfram hefðbundna og áður fyrirhugaða starfsemi sveitarfélaganna. Vel á annað þúsund störf hafa verið skipulögð innan átaksins, bæði af hálfu sveitarfélaga vítt og breytt um landið og opinberra stofnana.

Sveitarfélagið Skagafjörður tekur þátt í átakinu og eru nú auglýst á vef Vinnumálastofnunar (www.vmst.is) 20 störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri og rennur umsóknarfrestur um þau út þann 24. maí nk. Um margvísleg störf er að ræða og má þar m.a. nefna gestamóttöku og miðlun upplýsinga í Upplýsingamiðstöð á Sauðárkróki, skráningu ljósmynda í nýjan ljósmyndabanka Skagafjarðar, skráningu og frágang skjala, auk fjölbreyttra starfa á vegum VIT (vinna, íþróttir og tómstundir) og við íþróttasvæði í Skagafirði.

Þau störf sem falla undir átaksverkefnið eru ætluð námsmönnum sem skulu að lágmarki ná 18 ára aldri á árinu, hafa verið í námi á líðandi vetri og vera skráðir í nám í viðurkenndri menntastofnun, innlendri eða erlendri, á hausti komandi.

Nánari upplýsingar um störfin má finna á vef Vinnumálastofnunar (www.vmst.is) en allar umsóknir um þau fara í gegnum umsóknarkerfi stofnunarinnar sem þar er að finna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir