Sveitarfélagið Skagafjörður í plús á kjörtímabilinu

Á sveitarstjórnarfundi sl. miðvikudag fór fram fyrri umræða um ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2013. Óhætt er að segja að ársreikningurinn endurspegli þann gríðarlega viðsnúning sem orðið hefur í fjármálum sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Sveitarfélagið og stofnanir þess skiluðu á síðasta ári 314 milljón króna rekstrarhagnaði, þar af A-hluti með rekstrarhagnað upp á 11 milljónir króna.

Ef litið er til kjörtímabilsins í heild sinni, þ.e. árin frá 2010 þegar núverandi sveitarstjórn tók við og til loka síðasta árs þá skilar tímabilið tekjuafgangi hjá sveitarfélaginu í heild sinni upp á 44 milljónir króna. Þess ber að geta að fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu sveitarfélagsins upp á 77 milljónir króna.

Frá því að nýjar reikningsskilareglur sveitarfélaga tóku gildið árið 2002 og til upphafs þessa kjörtímabils hafði aðeins verið jákvæð niðurstaða frá rekstri sveitarfélagsins einu sinni áður, þ.e. árið 2007. Á þessu kjörtímabili hefur hins vegar orðið algjör viðsnúningur í rekstri, tap varð af honum árin 2010 og 2011 en afgangur árin 2012 og 2013 sem er í fyrsta sinn sem jákvæð niðurstaða fæst tvö ár í röð. Stöðugleiki og festa hefur náðst í reksturinn og kjörtímabilið verður sem fyrr segir í heild sinni rekið í plús. Þetta hefur tekist á sama tíma og sveitarfélagið er enn með einhver lægstu leikskóla- og dagvistargjöld barna á landinu og Skagafjarðarveitur með ódýrustu hitaveitu landsins.

Viðsnúningur sem þessi gerist ekki af sjálfu sér. Aga, festu og samstöðu þarf til. Ég vil fyrst og fremst þakka starfsfólki sveitarfélagsins sem og sveitarstjórnarfulltrúum fyrir samstillt átak sem leitt hefur til þessarar jákvæðu niðurstöðu.

 Stefán Vagn Stefánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir