Svavar Atli ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Tindastóls í körfunni

Svavar Atli og Baldur Þór við undirritun samnings í húsakynnum Lemon á Sauðárkróki. MYND: TINDASTÓLL
Svavar Atli og Baldur Þór við undirritun samnings í húsakynnum Lemon á Sauðárkróki. MYND: TINDASTÓLL

Í tilkynningu sem Feyki barst rétt í þessu frá stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls kemur fram að samið hefur verið við Svavar Atla Birgisson um að taka að sér starf aðstoðarþjálfara hjá meistaraflokki karla í körfubolta. Jan Bezica, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Baldurs Þórs Ragnarsson, þjálfara Tindastóls, var fyrir skömmu ráðinn þjálfari kvennaliðs Tindastóls og Svavar tekur við hans hlutverki.

Svabbi er að sjálfsögðu Skagfirðingur, skýr og hreinn, og búinn að negla niður ófáa þristana fyrir Stólana í gegnum árin. Hann lék 344 leiki í treyju mfl. Tindastóls og ferillinn spannaði yfir tvo áratugi. Auk þess að leika með liði Tindastóls á Svabbi leiki með liði Hamars í Hveragerði og Þórs úr Þorlákshöfn.

Haustið 2018 var Svavar heiðraður fyrir feril sinn með liði Tindastóls og við það tilefni var treyjan hans hengd upp í rjáfur í Síkinu en kappinn lék ávallt í tíunni. Það gleður efalaust eldheita stuðningsmenn Stólanna að fá Svabba á hliðarlínuna. Áfram Tindastóll!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir