Súrsætt jafntefli í fyrsta leik Tindastóls í efstu deild

Stólastúlkur fagna fyrsta marki sínu í Pepsi Max deildinni. MYNDIR: ÓAB
Stólastúlkur fagna fyrsta marki sínu í Pepsi Max deildinni. MYNDIR: ÓAB

Stólastúlkur tóku á móti liði Þróttar Reykjavík á Sauðárkróksvelli í kvöld í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu. Sannarlega stór dagur í sögu fótboltans á Króknum, flaggað í bænum af því tilefni, og kannski viðeigandi að bjóða upp snarpa norðangolu á Króknum – enda er Pepsi Max best ískalt. Lið gestanna var meira með boltann í leiknum en lentu undir og allt leit út fyrir að aðdáunarverður varnarleikur Tindastóls dygði til sigurs en gestirnir jöfnuðu í uppbótartíma. Jafntefli því sanngjörn úrslit.

Það mátti búast við smá sviðsskrekk hjá heimastúlkum í dag en þó spilið væri væri ekki fallegt á köflum þá var einbeitingin og baráttan upp á tíu. Sérstaklega var varnarlínan öflug með Bryndísi og Kristrúnu í hjartanu og Laufeyju og Maríu ólseigar í bakvarðarstöðunum. Fyrir framan þær var Bergljót dugleg en Dom átti frekar erfitt uppdráttar, virðist eiga talsvert í að komast í form en hún getur spilað boltanum betur en hún gerði í kvöld. Aldís María og Jackie komust ekki nóg á boltann, Murr var sívinnandi frammi og ógnandi. Hugrún átti virkilega góðan leik en best var Amber í markinu, greip hvað eftir annað vel inn í og varði markið af öryggi.

Það má nánast segja að lið Tindastóls hafi skorað úr fyrstu hættuleg sókn sinni í leiknum en sóknarleikurinn hafði verið ómarkviss fram að því. Þróttarstúlkur björguðu í horn en hornspyrna Laufeyjar á 36. mínútu barst á endanum til Hugrúnar sem potaði boltanum í markið og gerði þar með fyrsta mark Tindastóls í efstu deild. Markinu var að sjálfsögðu vel fagnað. Gestirnir reyndu að jafna fyrir hlé en Amber varði vel.

Þróttarar pressuðu nánast allan síðari hálfleikinn en Stólastúlkur vörðust vel. Lið Þróttar varð pínu örvæntingarfullt þegar á leið og þær reyndu að sækja aukaspyrnur. Heldur þótti stuðningsmönnum Tindastóls dómarinn vera gjafmildur og fannst t.d. aukaspyrna sem Katherina Cousins fiskaði á fyrstu mínútu uppbótartíma vera ódýr. Hún hafði skömmu áður sent aukaspyrnu langt upp í Grænuklaufina en nú setti hún boltann óverjandi í markið hjá Amber. Bæði lið reyndu að sækja sigurmarkið og lið Tindastóls var óheppið að næla ekki í stigin þrjú en Íris Dögg var vel staðsett í marki Þróttar í klafsi eftir hornspyrnu.

Leikurinn í kvöld sýnir og sannar að lið Tindastóls getur gert öðrum liðum í deildinni skráveifu en augljóslega þarf að auka breiddina í liðinu hið fyrsta. Það er hægt að komast bísna langt með góðu hugarfari og baráttu en liðið þarf að halda boltanum betur innan liðsins. Eitt stig komið í hús – næstum þrjú – og nú er það bara þetta gamla góða áfram gakk!

Næsti leikur er gegn liði Fylkis í Árbænum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir