Stigaskipti og strigakjaftur á Sauðárkróksvelli
Lið Tindastóls og Augnablika mættust í hörkuleik í dag í 3. deildinni en leikið var á Sauðárkróksvelli. Heimamenn tóku forystuna snemma leiks en gestirnir jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks og þrátt fyrir mikil átök tókst hvorugu liðinu að gera sigurmarkið og skildu því jöfn. Lokatölur 1-1.
Það var hlýtt á vellinum í dag en hliðarvindurinn á köflum ansi snarpur. Þrátt fyrir það tókst liðunum að spila ágætan bolta. Það var Arnar Ólafsson sem kom liði Tindastóls yfir á 17. mínútu, reykspólaði sig inn fyrir vörn gestanna og skoraði gott mark. Gestirnir stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleik en Atli Dagur varði aukaspyrnu frábærlega og einu sinni fór boltinn í stöng.
Augnablikar höfðu vindinn örlítið í bakið í síðari hálfleik og þá vill oft vera erfiðara að hemja boltann. Þeir fengu aukaspyrnu á 56. mínútu sem var rennt inn á teiginn, þaðan var boltinn sendur inn á markteig þar sem Þorbergur Steinarsson hælaði boltann laglega í markið. Gestirnir fögnuðu markinu af krafti – kannski helst til miklum þar sem þeir gerðu í því að ögra heimamönnum í kjölfarið og einn leikmanna Kópavogsliðsins öskraði hátt, en ekki snjallt, að leikmanni Tindastóls um leið og hann hljóp framhjá honum: „Litla tu***!“ Hann uppskar þó einungis tiltal hjá dómara leiksins en það mætti sannarlega taka harðar á svona framkomu sem á ekkert erindi inni á fótboltavellinum eða annars staðar.
Stólarnir komu sér ágætlega inn í leikinn í framhaldinu og í raun jafnræði með liðunum allt til leiksloka þó gestirnir kæmust nær því að skora. Áttu nokkur ágæt skot en hittu ekki markið. Lið Tindastóls náði álitlegum sóknum en það gekk illa að koma boltanum inn á hættusvæðið.
Eitt stig á lið því niðurstaðan og fyrsta stig Tindastóls því komið í hús. Lið Augnablika spilar ágætan fótbolta en þetta er einskonar b-lið Breiðabliks. Stólarnir virðast vera að finna taktinn en hópurinn kom ansi seint saman og menn enn að læra inn á samherja sína. Á fimmtudag verður grannaslagur en þá bruna strákarnir á Dalvík þar sem þeir mæta liði Dalvíkur/Reynis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.