Sumir koma um langan veg í Héðinsminni til að gæða sér á pönnukökum

Veglegt kaffihlaðborð í Héðinsminni. Mynd: Auður Herdís Sigurðardóttir
Veglegt kaffihlaðborð í Héðinsminni. Mynd: Auður Herdís Sigurðardóttir

Það er margt um vera í Félagsheimilinu Héðinsminni í Blönduhlíð, sem er nú nýtt á nýstárlegan hátt með nýjum áherslum. Auður Herdís Sigurðardóttir er rekstraraðili Héðinsminnis, en hún rak lengi vel föndurbúðina Kompuna á Sauðárkróki og Áskaffi í Glaumbæ.

Sem rekstraraðili leggur Herdís áherslu á að hvetja til samfunda, gefa fólki kost á að njóta góðgætis frá svæðisbundnum framleiðendum, kynna hina ýmsu framleiðslu og nýjungar, skapa umhverfi fyrir allskonar afþreyingu en á sama tíma að opna fyrir ferðaþjónustuaðila sem fara með hópa um hringveginn, vilja stoppa og njóta íslenskrar matarmenningar. Þar býður Herdís upp á allskonar mat, kökur og brauð sem hún framleiðir sjálf og hefur boðið upp á síðustu áratugina í Áskaffi.

Þrátt fyrir þessar nýjungar sinnir Héðinsminni þó ennþá sínu gamla þaulreynda starfi, s.s að hýsa gestaboð og ýmsa einstæða atburði eins og afmæli, nafnaveislur, brúðkaup, útskriftir og fleira. Feykir tók stöðuna á Herdísi og forvitnaðist um breyttar áherslur í rekstri félagsheimilisins.

Hvernig er Héðinsminni almennt bókað í sumar? „Héðinsminni er ágætlega bókað fyrir veislur í sumar en svo er ég sjálf með viðburði sem ég set upp hér í húsinu (sjá meðfylgjandi viðburðadagatal fyrir júlímánuð). Nýtt viðburðadagatal fyrir ágústmánuð verður sett inn á fésbókina seinni partinn í júlí. Svo það er um að gera að fylgjast vel með svo maður missi ekki af neinu og til að sjá hvort húsið sé bókað eða ekki.“

Hvaða viðburði/uppákomur hefur þú haldið það sem af er? „Ég hef verið að setja upp árstíðabundnar matarveislur í samstarfi við Brynjólf Birki Þrastarson, matreiðslumeistara, sem hefur veg og vanda að því að velja það sem er í boði hverju sinni. Við erum búin að halda tvo af fjórum viðburðum sem ákveðnir eru á þessu ári. Viðtökur voru afskaplega góðar og gestir nutu máltíðanna. Næsti viðburður af þessu tagi verður haldinn fyrsta vetrardag, þann 28. október. Þá verður spennandi að sjá hvað matreiðslumeistarinn gerir með haustuppskeru smáframleiðenda í firðinum. Fjórði viðburðurinn mun tengjast vetrarsólstöðum. Hann er áætlaður 16. desember. Þessa fjóra viðburði styrkir Uppbyggingarsjóður SSNV og er ég þeim þakklát fyrir stuðninginn. Í sumar verð ég með fasta súpudaga í hádeginu á þriðjudögum og svo spilakvöld á miðvikudögum. Þá verð ég núna í júlí með hádegismatarhlaðborð alla laugardaga og kaffihlaðborð alla sunnudaga. Ég er líka með nokkra fyrirfram bókaða hópa í hádegis- og kvöldverðum í sumar.“

Hvernig hafa viðtökur verið? „Kaffihlaðborðin eru vinsæl og sumir koma um langan veg til að gæða sér á pönnukökum, tertum og ýmsu fleiru. Það er ekki komin svo mikil reynsla á viðtökur heimamanna en ég vona að fólk sé almennt ánægt að sjá eitthvað nýtt gerast, t.d. í matartengdum viðburðum og að félagsheimilið sé notað meira en venjulega.“

Hvaða viðburðir/uppákomur eru framundan? „Framundan eru spennandi tímar hjá mér, eins og síðustu tvær árstíðabundnu matarveislurnar (28. október og 16. desember) og vonandi vill fólk koma við í súpu, spil eða hlaðborð og upplifa staðinn og það sem við höfum upp á að bjóða í mat og drykk.

Hvernig gengur að fá hinn almenna ferðamann til að stoppa í Héðinsminni? „Ég þarf að setja upp skilti og flögg til að gestir eigi auðveldara með að finna staðinn. En þeir eru duglegir að hringja og spyrja „hvar ertu!“

Nú hefur sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkt að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum félagsheimilum í Skagafirði til aðila sem sjá tækifæri í að bæta nýtingu húsanna. Hver er þín afstaða til þess, og heldur þú að tækifærin væru fleiri í Héðinsminni fyrir þig ef þú t.d. ættir húsnæðið? „Mín afstaða er jákvæð gagnvart sölu félagsheimilanna. Ég styð það. Ég sé ekki að sveitarfélagið þurfi mikið á þeim öllum að halda lengur. Ég fagna því að fá tækifæri til að búa til eitthvað nýtt og nýta þessa aðstöðu til að skapa ný störf og bjóða upp á nýja upplifun fyrir mataráhugafólk og þá sem langar að gera sér gott og hitta aðra, maður er manns gaman. Tækifærin eru mörg en þau krefjast tíma og fjármagns til að allt gangi upp. Góðir hlutir gerast hægt, oft mjög hægt. Samstarf og samvinna er lykill að góðum árangri. Verið velkomin í Héðinsminni í Blönduhlíð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir