Sú gula lætur sjá sig í dag

Svipaðar myndir hafa birst áður á Feyki í sumar... SKJÁSKOT AF VEÐUR.IS
Svipaðar myndir hafa birst áður á Feyki í sumar... SKJÁSKOT AF VEÐUR.IS

Já, Veðurstofan er ekkert að djóka með þessa gulu. Hún fær pláss í spánni í dag sem er á þessa leið: „Suðvestan 15-23 m/s með vindhviðum staðbundið að 30-35 m/s, hvassast á Ströndum. Til að forðast foktjón er fólk hvatt til að tryggja lausamuni utandyra. Varasmt ökutækjum, sem verða óstöðug í vindi.“ Við erum semsagt að tala um gula veðurviðvörun.

Svo við gætum allrar sanngirni þá fær þessi gamla gula með geislana hlýju að njóta sín í dag líka. Skagfirðingar fá þó meira af henni en Húnvetningar þennan daginn því spáin gerir ráð fyrir skjannabjörtu austan Þverárfjalls nú um tíuleytið en 15-20 m/sek sunnan eða suðvestanvindi. Þegar það er veisla þá er veisla.

Um kaffileytið í dag er spáð 26 metrum á Hrauni og því vissara að taka inn trampólínin á Skaga. Útlit er fyrir ágætis sumarveður á morgun og á laugardag en á sunnudag þykknar upp og snýst í norðanátt. Á mánudag og þriðjudag verður kalt og blautt og reiknað er með snjókomu á Öxnadalsheiði um miðjan dag á þriðjudag.

Semsagt; bálhvasst við á Norðurlandi vestra í dag og vissara að fara að öllum með gát.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir