Styrktarhlaup Einstakra barna á Sauðárkróki þann 1. maí
Hlaupahópurinn 550 rammvilltar ætla að taka Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sér til fyrirmyndar og efna til styrktarhlaups fyrir Einstök börn, sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni.
Búið er að stofna viðburð á Facebook undir heitinu „Styrktarhlaup Einstakra barna á Sauðárkróki“ og kemur þar fram að hlaupið verði sett upp sem 5 km leið en öllum er frjálst að hlaupa lengri eða styttri vegalengdir.
„Hugmyndin er fyrst og fremst sú að öll geti tekið þátt í hlaupinu, hafa gaman saman og styrkja Einstök börn í leiðinni. Það verður engin tímataka og það má ganga og hlaupa, með vagn, stól, börn eða bara sjálfan sig. Hlaupið verður frá Sundlaug Sauðárkróks mánudaginn 1. maí og hefst hlaupið kl. 17:00. Boðið verður upp á létta upphitun fyrir hlaup og stuttar teygjuæfingar og drykk að hlaupinu loknu.
Félagsmenn hlaupahópsins 550 rammvilltar munu greiða 2000 kr. í þátttökugjald sem rennur beint til Einstakra barna og eru öllum frjálst að leggja málefninu lið á staðnum.
Við hvetjum ÖLL til þess að taka þátt, mæta á staðinn ca. 30 mín fyrir hlaup og gaman ef gætum glitrað svolítið saman í anda Einstakra barna. Svo dragið upp glimmergallann og hlaupaskóna og hlaupið með okkur til styrktar þessu góða málefni! Hlökkum til að sjá ykkur!“
Í hlaupahópnum 550 rammvilltar eru nokkrar konur á Sauðárkróki sem hafar það að markmiði að stunda utanvegarhlaup og fjallgöngur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.