Styðjum Kvennathvarfið – öll með tölu
feykir.is
Aðsendar greinar
19.09.2012
kl. 08.21
Heimilisofbeldi er mikið böl fyrir þá sem slíkt þurfa að þola beint og ekki síður fyrir þau börn sem verða vitni að slíku. Því miður er það svo að konur og börn eru oftar fórnarlömb heimilisofbeldis en karlar. Þess vegna var það á sínum tíma mikið framfaramál þegar konur úr ýmsum áttum tóku sig til og opnuðu Kvennaathvarfið.
Þar er athvarf fyrir konur og börn þeirra sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Á hverju ári dvelja 100-130 konur í athvarfinu ásamt börnum sínum þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis af hendi einhvers nákomins. Einnig koma árlega 200-300 konur í Kvennaathvarfið í ráðgjafar- og stuðningsviðtöl. Þá eru ótaldar konur sem taka þátt í sjálfshjálparhópum og hringja í neyðarsíma athvarfsins.
Samtök um kvennaathvarf búa ekki við fasta fjármögnun og þurfa að fjármagna starfsemina með styrkjum frá ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og velvildarfólki. Núverandi húsnæði Kvennaathvarfsins rúmar ekki starfsemina svo vel fari. Kvennaathvarfið starfar í eigin húsnæði sem keypt var fyrir gjafa- og söfnunarfé. Brýnt er að stækka við sig og hafa samtökin nú hleypt af stokkum sérstöku fjáröflunarátaki til að gera það kleift.
Nú gefst okkur Skagfirðingum tækifæri til að leggja okkar að mörkum til húsnæðiskaupa athvarfsins. Það getum við gert með því að kaupa tölu sem kostar 1.000 kr. stykkið. Þær eru til í öllum regnbogans litum og fást í verslunum Kaupfélags Skagfirðinga, hjá Íslandspósti og einnig í Ráðhúsinu.
Mér er sagt að Kvennaathvarfið hafi reynst konum og börnum úr Skagafirði ákaflega vel sem þangað hafa þurft að leita. Sveitarfélagið hefur þess vegna á undanförnum árum veitt athvarfinu örlítinn rekstrarstyrk. Bætum nú um betur og kaupum tölu, öll með tölu.
Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.