Stórleikur í Pepsi Max deild kvenna í kvöld
Nú styttist í knattspyrnutímabilinu og fáir leikir eftir. Stólastúlkur eiga eftir að spila þrjá leiki í Pepsi Max deildinni og í kvöld er gríðarlega mikilvægur leikur á Sauðárkróksvelli þar sem ekkert annað en sigur dugar. Mótherjar Tindastóls er lið Keflavíkur sem er sem stendur í áttunda sæti deildarinnar með tveimur stigum meira en Stólastúlkur sem sitja á botninum. Leikurinn hefst kl. 18:00 og nú má enginn liggja á liði sínu – stelpurnar okkar þurfa pepp og stuðning.
Fimm lið geta fallið úr Pepsi Max niður í Lengjudeildina þegar þrjár umferðir eru eftir. Lið Þórs/KA stendur best að vígi, er með 18 stig en hefur leikið leik meira en hin liðin fjögur. Lið ÍBV úr Eyjum er í sjöunda sæti með 16 stig, Keflavík sem fyrr segir í áttunda sæti með 13 stig, Fylkir er með 12 og Tindastóll 11. Þrír leikir geta mögulega gefið níu stig og því er allt hægt enn þá.
Lið Keflavíkur og Tindastóls komu upp úr Lengjudeildinni síðasta haust og hafa bæði verið að ströggla í sumar þó kannski megi segja að liðin hafa nælt í fleiri stig en reiknað var með. Það munar hins vegar um það að Suðurnesjastúlkurnar hafa nælt í fjögur stig gegn meistaraliði Breiðabliks í sumar og munar um minna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.