Stór vika framundan í Textílmiðstöðinni

Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi stendur fyrir tveimur viðburðum tengdum HönnunarMars 2021. Annars vegar afhending verðlauna í Ullarþoni, hugmynda- og nýsköpunarkeppni sem haldin var í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hins vegar formleg opnun TextílLabs á Blönduósi. Í tilkynningu frá Textílmiðstöðinni kemur fram að verðlaun í Ullarþoni verða afhend af hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands nk. fimmtudag, 20. maí kl. 17 á svæði Textílfélagsins á Hafnartorgi, Kolagötu 2.

Jafnframt kemur fram að markmið Ullarþonsins hafi verið að finna leiðir til að auka verðmæti verðminnstu ullarflokkana með tilliti til hringrásarhagkerfisins en á Facebookarsíðu Ullarþonsins má sjá myndband með topp 5 í hverjum keppnisflokki. 
TextílLab er á vegum Textílmiðstöðvar Ísland og það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og er staðsett á Þverbraut 1 á Blönduósi. Gefur það aðgengi að stafrænni tækni til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og hlaut verkefnið uppbyggingarstyrk frá Innviðasjóði sem er hluti af alþjóðlegu verkefni CENTRINNO sem Textílmiðstöð tekur þátt í, styrkt af Horizon2020 rannsóknaráætlun ESB.

Eftir formlega opnun TextílLabs á Blönduósi að Þverbraut 1 á föstudaginn 21. maí nk., kl. 14 verður opið hús til kl. 20:00. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir koma til með að ávarpa gesti og að klippa í sameiningu á þráðinn þegar TextílLab verður opnað.

Sjá dagskrá HÉR

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir