Stólastúlkurnar reyndust Stólastúlkunum erfiðar í hörku grannaslag
Það var grannaslagur á Akureyri í gær þegar lið Þórs og Tindastóls mættust í 1. deild kvenna. Lið Akureyringa er að stórum hluta skipað fyrrum leikmönnum Tindastóls en fjórar stúlkur yfirgáfu lið Stólanna í sumar og skiptu yfir í Þór og það var því nokkuð gefið að hart yrði barist í Höllinni. Stólastúlkur komu ljóngrimmar til leiks og gáfu Þórsurum alvöru leik. Staðan var jöfn þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka en á lokametrunum skilaði breiddin í liði Þórs heimastúlkum sigri. Lokatölur 79-68.
Þórsarar hafa á að skipa sterku liði sem er á toppi 1. deildar, eru með góða breidd sem fyrr segir og hafa í sínu liði þrjár stúlkur sem voru í byrjunarliði Tindastóls á síðasta tímabili; þær Marín Lind og svo Akureyringana ágætu, Karen Lind og Evu Wium, en allar þessar stúlkur hafa verið í unglingalandsliðum Íslands og bráðefnilegar. Auk þess skipti Kristín María Snorradóttir yfir í lið Þórs í sumar.
Lið Tindastóls kom með mikla orku inn í leikinn og var yfir 9-14 þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður. Karen og Eva jöfnuðu metin en körfur frá Ksenju og Maddie komu Stólastúlkum aftur í forystu áður en Marín Lind klóraði í bakkann. Staðan var 18-21 að loknum fyrsta fjórðung en heimastúlkur hófu annan leikhluta af krafti og körfur frá Karenu og Evu komu þeim fjórum stigum yfir, 25-21, en Anna Karen svaraði með þristi. Mótlætið fór í taugar Þórsara og lið Tindastóls náði yfirhöndinni á ný og leiddi í hálfleik, 31-33, eftir íleggju frá Fanneyju.
Heimastúlkur ákváðu að leggja harðar að sér í síðari hálfleik og Marín Lind jafnaði metin eftir að Þórsliðið stal boltanum í fyrstu sókn Tindastóls. Þær náðu í framhaldinu fimm stiga forystu og Stólastúlkur komust aldrei yfir eftir það en voru aldrei langt undan. Marín Lind kom Þórsliðinu sjö stigum yfir um miðjan leikhlutann, 48-41, og í níu stiga forystu skömmu síðar, 52-43, en gestirnir svöruðu fyrir sig. Fyrst setti Eva Rún niður stökkskot en síðan fylgdu tvær körfur frá Fanneyju áður en Maddie minnkaði muninn í eitt stig, 52-51. Þórsliðið átti síðasta orðið í fjórðungnum og leiddu 54-51 að honum loknum.
Lið Þórs gerði fyrstu körfur fjórða leikhluta en Ksenja og Eva minnkuðu muninn í fjögur stig, 59-55, og áfram hélt baráttan. Maddie Sutton, í liði Tindastóls, jafnaði svo metin 61-61 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá skildu leiðir og Þórsarar sýndu styrk sinn á lokakaflanum, þó ekki væru Stólastúlkur á þeim buxunum að leggja árar í bát. Eva Rún minnkaði muninn í þrjú stig, 67-64, og þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 69-65 en þristur Þórsara í kjölfarið gerði brekkuna of bratta fyrir lið Tindastóls og sigurinn heimastúlkna – já, eða hins Tindastólsliðsins.
Gerðum nokkur lítil mistök
Feykir hafði samband við Telmu Ösp Einarsdóttur, fyrirliða Tindastóls, að leik loknum og spurði hvernig henni hefði þótt leikurinn og hvað hefði ráðið úrslitum. „Þetta var fínn leikur. Eins og mátti búast við þá var mikil barátta í báðum liðum og ekkert gefið eftir. Það er alltaf gaman að spila á móti Þór Akureyri, þær eru með flottan hóp þetta tímabilið. Leikurinn var jafn alveg fram á síðustu mínúturnar. Þá gerðum við nokkur lítil mistök sem þær nýttu sér vel og kláraði svoldið leikinn. Annars er alltaf fúlt að tapa en það voru margir góðir hlutir sem við tökum með okkur. Við erum alltaf að bæta okkur og við munum mæta ennþá sterkari í næsta leik.“
Ksenja Hribljan gerði 21 stig fyrir Tindastól, átti sex stoðsendingar en tapaði tíu boltum á meðan Maddie setti 19 stig og tók 17 fráköst og átti sömuleiðis sex stoðsendingar. Skotnýtingin var þó ekki upp á það besta gegn sterkum Þórsstúlkum. Eva Rún gerði 12 stig en Anna Karen og Fanney sex hvor og Inga Sólveig fjögur stig. Meðalaldur byrjunarliðs Tindastóls var 19 ár en liðs Þórs 22 ár. Króksarinn Marín Lind var stigahæst í liði Þórs með 19 stig en næst var Eva Wium með 14 stig.
Næsti leikur Stólastúlkna er gegn liði Vestra á Ísafirði 27. nóvember en liðið spilar nú þrjá útileiki í röð. Lið Ármanns kemur síðan í Síkið þann 4. nóvember.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.