Stólastúlkur stóðu í Blikum í Mjólkurbikarnum
Lið Breiðabliks og Tindastóls mættust í kvöld í Mjólkurbikarnum og var leikið í Kópavogi. Blikar voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum en gekk illa að hrista af sér baráttuglaðar Stólastúlkur. Heimaliðið gerði þó mark í sitt hvorum hálfleik en Murr minnkaði muninn seint í leiknum og þar við sat. Lið Tindastóls er því úr leik í bikarnum en lokatölur 2-1.
Það má kannski segja að það hafi ekki verið hægt að hefja bikarferðalagið mikið brattara en að mæta Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli. Eftir úrslitin í síðustu umferð Íslandsmótsins, þar sem Blikar unnu Valskonur 3-7 en Stólastúlkur töpuðu heima gegn Þór/KA, voru sennilega ekki margir bjartsýnir fyrir hönd Tindastóls. En rétt eins og í leiknum gegn Breiðabliki fyrir tólf dögum síðan þá var seigt í gestunum sem voru þó ekki að sýna neinar sparihliðar í fyrri hálfleik. Hver sóknin af annarri buldi á Tindastólsliðinu en þar reyndist síðasti stríðsmaðurinn í varnarlínunni, Amber, heldur betur betri en enginn. Hún kom þó engum vörnum við þegar Heiðdís Lillýardóttir skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Staðan í hléi 1-0.
Murr var send til leiks í hálfleik en þjálfarar Tindastóls höfðu aðeins hreyft liðið frá síðustu leikjum og reyndu að hvíla nokkra leikmenn. Þó heimastúlkur hefðu enn tögl og haldir þá fór lið Tindastóls aðeins að láta á sér kræla á vallarhelmingi Blika. Það var Agla María Albertsdóttir sem gerði annað mark Breiðabliks á 68. mínútu, fékk þá sendingu inn fyrir vörn Tindastóls, lyfti boltanum yfirvegað yfir Amber sem kom æðandi út á móti og rúllaði boltanum síðan í markið. Stólastúlkur færðu sig framar á völlinn og á 78. mínútu minnkaði Murr muninn með laglegu marki. Dom vann boltann á miðjunni og sendi fína sendingu upp hægri kantinn þar sem Aldís María komst í góða stöðu og sendi flottan bolta fyrir markið. Þar kom Murr á siglingu og lagði boltann óverjandi upp í þaknetið. Flott mark. Smá spenna hljóp í leikinn eftir þetta en fleiri urðu mörkin ekki.
Amber Michel í marki Tindastóls var klárlega maður leiksins, varði hvað eftir annað með tilþrifum og hélt Stólastúlkum inni í leiknum. Var kannski orðinn full sókndjörf undir það síðasta en það vantar sannarlega ekki stríðshjartað í hana.
Meiðslalistinn áhyggjuefni
„Heyrðu, þetta var kaflaskipt,“ sagði Óskar Smári í þjálfarateymi Tindastóls þegar Feykir náði í hann að leik loknum. „Við settum leikinn upp með það hugarfar að byrja strax og sýna að við værum mættar. Það gekk ekki upp því við vorum undir á öllum vígstöðvum vallarins í nánast öllu sem tengdist fótbolta fyrstu 20 mínúturnar. Við komumst aðeins inn í leikin eftir fyrstu tuttugu en heilt yfir var frammistaða liðsins í fyrri hálfleik slök. Í hálfleik var rætt um að byrja bara í grunninum og fara að sýna það fyrir bæði okkur sjálfum og okkar stuðningsmönnum hvað við stöndum fyrir og sýna okkar gildi. Seinni hálfleikur var allt annar. Við fórum á fullu í návígin, fórum að yfirgnæfa talanda inni á vellinum og takturinn í okkar leik kom með. Svekkjandi að fá mark númer tvö á okkur með löngum inn fyrir, en það svo sem vita allir að það má ekki taka augun af sóknarmönnum Blika og þá eru þær komnar í álitlega stöðu. Eftir mark tvö svörum við fyrir það og í raun leið okkur eins og við gætum sett annað. Þannig að við þjalfararnir erum ekki nægilega ánægðir með hvernig við byrjum leikinn en viðbrögð liðsins eftir hálfleikinn voru mjög góð. Við þjalfararnir vorum stoltir af stelpunum eftir leik, við sýnum það í annað skiptið á stuttum tíma að við eigum fullt erindi í þessi topplið landsins.“
Óskar Smári segir að talsverð meiðsli hrjái nú hópinn en bæði Bergljót og Sólveig voru meiddar og Jenný gat ekki spilað í gær í kjölfar höfuðhöggs sem hún fékk fyrir tímabilið og er enn að plaga hana. Laufey fékk höfuðhögg seint í leiknum í gær og þarf að taka stöðuna á henni þegar nær dregur helgi. Þá hefur Murr strítt við hnémeiðsli og er því ekki á fullu farti.
Það er skammt stórra högga á milli en á laugardaginn mætir fyrrum Tindastólskappinn Pétur Pétursson á Krókinn með stelpurnar sínar í Val. Leikurinn hefst kl. 16 og venju samkvæmt er spáð sólstrandarveðri á Króknum, 16 stiga hita og einum léttum metra úr vestri, og því best í heimi að mæta á völlinn og hvetja stelpurnar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.