Stólastúlkur sóttu geggjaðan sigur á Selfoss
Tap gegn liði Keflavíkur í síðasta heimaleik Stólastúlkna í botnbaráttu Pepsi Max deildarinnar var mikið kjaftshögg og ekki verðskuldað. Tapið þýddi að ekkert annað en sigur í síðustu tveimur leikjum liðsins gæfi liðinu séns á að halda sæti sínu í deild hinna bestu og ekki víst að það dugi þegar upp er staðið. Stólastúlkur kláruðu fyrri leikinn í dag með frábærum og sanngjörnum sigri á sterku liði Selfoss. Lokatölur 1-3.
Sunnlenska sumarið var samt við sig á Selfossi í dag, dumbungur og hvassviðri. Lið Tindastóls hafði vindinn í bakið í fyrri hálfleik og náði fljótlega stjórn á leiknum, létu boltann ganga ágætlega og horn- og aukaspyrnur liðsins komu heimastúlkum hvað eftir annað í vandræði. Laura Rus gerði eina mark fyrri hálfleiks á 24. mínútu eftir stutta hornspyrnu; Jackie sendi á Laufeyju sem átti góða sendingu inn á markteig Selfoss þar sem Laura náði að pota boltanum í markið. Stuttu síðar fékk Jackie boltann í góðu færi en náði ekki nógu góðri snertingu og markvörður Selfoss varði. Staðan 0-1 í hálfleik.
Heimastúlkur færðu sig framar í síðari hálfleik en vörn Tindastóls vann vel saman og Amber var vel vakandi í markinu. Bæði lið sköpuðu sér færi en Selfyssingar voru nálægt því að jafna þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en þá átti markadrottningin Brenna Lovera hörkuskot í þverslá. Lið Tindastóls náði skyndisókn á 82. mínútu þegar Murr fékk langa sendingu, tók vel við boltanum og náði að snúa á varnarmann og senda eitraða sendingu inn fyrir vörn Selfoss á Aldísi Maríu sem var á auðum sjó. Hún kláraði færið af öryggi og staðan 0-2. Heimastúlkur settu nú allt á fullt í sókninni og þær minnkuðu muninn á 85. mínútu, Anna María Friðgeirsdóttir komst inn á vítateig Stólanna og setti þéttan bolta fyrir og Nadín okkar kom fæti í boltann en sneiddi hann í eigið mark. Mikill hraði var í leiknum og það teigðist talsvert á leiktímanum vegna meiðsla leikmanna. Það var því komið á níundu mínútu uppbótartíma þegar Murr og Aldís María endurtóku leikinn frá á 82. mínútu og Aldís gerði annað mark sitt í leiknum og tryggði sigur Tindastóls.
Þetta var sigur liðsheildarinnar. Stólastúlkur komu ákveðnar og yfirvegaðar til leiks, pressuðu heimastúlkur af krafti og áttu einn sinn besta leik í sumar með bakið upp að vegg.
Uppleggið var rokk og ról!
„Uppleggið var töluvert öðruvisi en vanalega,“ sagði Óskar Smári Feyki eftir leik. „Við þjalfararnir ákváðum að fara í Rokk og Ról. Pressa hátt, fara hátt á völlinn og vera með læti. Þegar við vinnum boltann hátt að reyna að spila fram á við, ef það væri ekki hægt að þá halda í boltann. Við ræddum þetta við leikmenn snemma í vikunni og þeim leyst vrl á þetta þannig við ákváðum að fara þessa leið í þetta skiptið. Stelpurnar gerðu það frábærlega. Við þjalfararnir vildum fara í þennan leik til þess að sækja þessi þrjú stig og það tókst.“
Hvað voruð þið þjálfararnir ánægðir með í dag?„Við vorum gríðarlega ánægðir með frammistöðuna og stigin þrjú. Frammistöður leikmanna virkilega góðar og stelpurnar spiluðu sem lið. Leikmenn sem komu inn á gerðu mjög vel, Aldís skilar inn tveimur frábærum mörkum og Bergljót kemur inn á miðjuna og kemur með ró í okkar leik. Þeir leikmenn sem ekki toku þátt inni á vellinum voru einnig frábærir, þær fögnuðu hvað mest eftir leikinn og erum við þjalfararnir hrikalega ánægðir með hvað stelpurnar voru allar fókuseraðar á verkefnið.“
Hvernig leggst lokaleikurinn gegn gömlum félögum þínum í Stjörnunni í þig?„Hann leggst vel í okkur. Við þurfum að treysta á að Þór/KA klári sinn leik sannfærandi og við þurfum einnig að eiga algjöran toppleik gegn góðu liði Stjörnunar.“
Eiga Stólastúlkur séns á að halda sæti sínu í deildinni?„Það er allt hægt í fótbolta, ef það er eitthvað lið sem hefur trú þá er það meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli og ætlum við að fara í leikin gegn Stjörnunni með sama hugarfar eins og í þennan leik – skora mörk og áfram í rokki og róli. Einnig lofum við því að við munum þakka áhorfendum okkar fyrir leikinn. Það gleymdist í pirringnum eftir Keflavikurleikinn og við munum heldur betur þakka okkar fólki fyrir þann frábæra stuðning sem við höfum fengið í allt sumar. Einnig viljum við hvetja fólk til að koma á leikinn og hvetja okkur í síðasta leik sumarsins. Áfram Tindastóll!“
Síðasta umferðin fer mestöll fram sunnudaginn 12. september og hefjast leikirnir kl. 14:00. Tindastóll fær þá lið Stjörnunnar í heimsókn en Keflavík sækir heim lið Þórs/KA. Lið Tindastóls er nú í níunda sæti deildarinnar með 14 stig og markatölu sem er -16 en Keflavík er með 17 stig og -10 markatölu. Lið Fylkis er fallið.
Það þarf því margt að ganga upp til að Stólastúlkur nái að flýja fallsætið með glæsibrag en við erum enn í séns fyrir síðustu umferðina. Það er geggjað.
- - -
Hrefna Morthens myndaði á leiknum og hér er slóð á myndir hennar sem birtar eru á Fótbolti.net >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.