Stólastúlkur og -strákar á sigurbraut
Meistaraflokkar kvenna og karla hjá Tindastóli eru enn á sigurbraut í boltanum. Síðastliðinn fimmtudag léku stúlkurnar síðasta leik sinn í C-riðli og sigruðu þær lið Völsungs á Húsavík 1-2. Strákarnir unnu fjórtánda leik sinn í röð þegar þeir sóttu Þróttara heim í Vogana og endaði leikurinn 0-1.
Sextíufjórir áhorfendur sáu tíu spjalda leik hjá strákunum á laugardaginn og dreifði Halldór Breiðfjörð dómari spjöldunum jafnt á milli liðanna. Eina mark leiksins leit dagsins ljós mínútu fyrir hlé og þá var það Benjamín Gunnlaugarson sem kom boltanum í mark Þróttara. Stólarnir þurfa tvö stig í viðbót til að gulltryggja efsta sætið í deildinni en liðið er efst með 42 stig eftir 15 leiki. Víðismenn eru með 34 stig og bæði lið örugg með sæti í 2. deild að ári.
Stelpurnar léku á Húsavík sem fyrr segir og sigruðu 1-2. Kasey Wyer kom Tindastóli yfir á 25. mínútu og Vigdís Edda Friðriksdóttir bætti við öðru marki á 56. mínútu. Húsvíkingar minnkuðu muninn með marki Hafrúnar Olgeirsdóttur og á 72. mínútu og þar við sat. Lið Tindastóls varð langefst í C-riðli 1. deildar með 25 stig í tíu leikjum. Þær mæta annað hvort liði Keflavíkur eða Augnabliks í úrslitakeppninni sem hefst 3. september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.